Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 9
L j ó ð e r u a l l t a f í u p p r e i s n
TMM 2006 · 2 9
mig. Ég hafði búið til einhvers konar spegil – spegill er samt ekki góð
líking, ég er orðinn þreyttur á þessu speglatali, að listin eigi að endur-
spegla veruleikann. Majakovskí sagði að listin ætti ekki að vera spegill
heldur hamar til að móta nýjan veruleika. Það er betra. Svo man ég eftir
annarri tilvitnun í Kafka sem sagði að bók eigi að vera ísöxi til þess að
brjóta hið frosna haf innra með okkur. Það er líka ansi gott.“
Manstu þetta fyrsta ljóð – eða um hvað það var?
„Nei. Það byrjaði hvergi og endaði hvergi, en ég sá strax einhverjar
línur í þessum texta sem vöktu áhuga minn. Þetta var ekki ég en samt
frá mér komið. Ég vissi ekki þarna strax að þetta lægi fyrir mér, það
gerðist ekki fyrr en í fjórða bekk, þá fannst mér ég taka stórstígum fram-
förum, man ég var. Á þessum tíma las ég allt sem ég komst yfir, aðallega
ljóð. Ég er náttúrlega gamall skrásetjari og í dagbókarfærslum frá þess-
um tíma má lesa nákvæmar skrár yfir allar bækur sem ég las og þær sem
mig vantaði.“
Hvað kveikti mest í þér þá?
„Sá sem allir lásu og ég var mjög hrifinn af var Steinn Steinarr. Hann
virðist hafa alveg sérkennilegt aðdráttarafl fyrir fólk á aldrinum fjórtán
ára til tvítugs. Auga eilífðarinnar og allt það. Konkret og abstrakt saman
í þversagnakenndri tvíböku, auga og eilífð, hlutlægt og huglægt. Ég
gekk í gegnum þetta auga eilífðarinnar-tímabil í fjórða bekk; þá fór það
allt í einu í taugarnar á mér enda þótt ég væri áfram mjög hrifinn af
Steini. Til dæmis finnst mér kafli númer tvö í Tímanum og vatninu
(„Sólin/sólin var hjá mér“) eitt af tíu bestu ljóðum á íslensku á öldinni.
En ég lærði það að minnsta kosti af Steini að forðast að líkja eftir þeim
sem maður er mjög hrifinn af, ljóðagerð er ekki karaókí. Ef þú lítur til
dæmis á „Ævisögu“, fyrsta ljóðið sem ég birti opinberlega, þá vottar þar
hvergi fyrir Steini.
Nú þess utan las ég mikið Hannes Pétursson, Þorstein frá Hamri,
Sigfús Daðason, Thor Vilhjálmsson, Ara Jósefsson, Dag Sigurðarson,
Matthías Johannessen, Snorra Hjartarson, Einar Braga, Ástu Sigurðar-
dóttur, Jón Óskar, Stefán Hörð, Hannes Sigfússon, Vilborgu Dagbjarts-
dóttur, Nínu Björk, alla þessa höfunda og marga fleiri las maður í tætlur.
Síðan kom Tómas Jónsson metsölubók eins og elding af himnum, þá var
ég í sjötta bekk, það var hugljómun.
Síst af öllu má gleyma þeim erlendu skáldum sem ég var að uppgötva
á þessum tíma, suma í splunkunýjum þýðingum. Majakovskí í þýðingu
Geirs Kristjánssonar, Rimbaud, Baudelaire, Lautréamont, Apollinaire
og fleiri Fransmenn í þýðingu Jóns Óskars, þýðingar í Birtingi, aðallega
eftir Thor, ýmsar þýðingar Jóhanns Hjálmarssonar o.s.frv. Þetta voru