Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 10
S i g u r ð u r Pá l s s o n
10 TMM 2006 · 2
ekki svo litlar gjafir, allt kom þetta út á örfáum árum þarna á þessum
yndislega sjöunda áratug. Svo var Dylan kominn með sinn nýja tón í
ljóðlistina, Bítlarnir og Rolling Stones, hvað viltu hafa það betra þegar
þú ert sextán, sautján, átján ára?
Svo gat maður lesið dönsku betur og betur með hverjum deginum,
(Ny dansk lyrik, yndisleg bók, yndislegt ljóðmál danska!), ensku (Ítal-
ann Quasimodo og Rússann Evtúsjenkó o.fl. las ég á ensku) og jafnvel
þýsku, ég gat lesið Rilke í sjötta bekk mér til gagns.
Eitt enn finnst mér nauðsynlegt að minnast á. Í náminu var mikill
málfræðilærdómur; íslensk málfræði, latnesk, þýsk, dönsk, frönsk… Það
var bara ansi góður skóli í skriftum. Ekki síður sú staðreynd að þá var
mikið lagt upp úr því að þýða almennilega, ekki bara bókstafsþýðing,
heldur alvöruþýðing. Og hvað hefur það í för með sér? Einfaldlega, að öll
tungumál voru þar með lærdómur í íslensku. Það er frábært. En kennsla
í sambandi við ljóð var ekki uppörvandi, ég held reyndar að henni hafi
jafnvel farið aftur ef eitthvað er; nú er í gangi eitthvað skelfilegt stagl í
sambandi við myndhverfingar og alls konar tækniheiti, ég sé ekki betur
en það sé á köflum á leiðinni út í einhverja dellu.
Svo hafði stærðfræðin mikil áhrif á mig í menntó, ég var í fyrsta ár-
gangi sem lærði nýju stærðfræðina svonefndu, naut leiðsagnar afburða-
kennarans Björns Bjarnasonar, síðar rektors MT. Ég hef varla fengið
betri skólun í skáldskap en þá stærðfræðitíma. Samt skipti ég um deild
út af ýmsu sem ég þoldi ekki, aðallega efnafræðinni, og er stúdent úr
máladeild, þurfti að vinna upp djöfuldóm af latínu á stuttum tíma, það
var dýrðlegt.
Af eldri skáldum íslenskum hreifst ég af sumum, öðrum ekki. Náði til
dæmis aldrei sambandi við Davíð Stefánsson, hann sagði mér aldrei
neitt, gagnstætt Tómasi Guðmundssyni sem var afar mikilvægur. Hins
vegar hafði ég alltaf skringilega gaman af hinu furðulega skáldi Grími
Thomsen, hann talaði einkennilega til mín og mér hefur alltaf verið
hlýtt til hans. Svo var það Jóhann Jónsson, hann orti besta ljóð tuttug-
ustu aldar á íslensku og dó svo óralangt um aldur fram. Ég er vitanlega
að tala um Söknuð.
Ég var líka alltaf glaður og endurnærður af að lesa Einar Benedikts-
son, en sá besti var Jónas Hallgrímsson, í mínum huga var það aldrei
spurning. Í uppreisnarmonti unglingsáranna var í tísku hjá einhverjum
af félögum mínum að líta niður á Jónas, það særði mig alltaf en ég sagði
ekkert. Það er eðlilegt á þessum aldri að vera í uppreisn gegn því sem er
viðurkennt; verst er þegar það eldist ekki af fólki. Uppreisnarmaður sem
breytist ekki – af því allt breytist og allt á að breytast – hann er svolítið