Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Qupperneq 12
S i g u r ð u r Pá l s s o n
12 TMM 2006 · 2
syni SÚM-manni sem var svo einstaklega gjafmildur á allt sem hann
vissi og hafði stúderað. Hann var afar vel að sér í flúxus-hreyfingunni
og sýndi mér alls konar bækur. Hér á litlu kaffihúsi í þessari skrýtnu
borg utan og ofan við heiminn fékk ég þessar fínu upplýsingar um þetta
algjöra últra avant-garde sem flúxus var. Þá var ég sautján ára. Það er
ekki sjáanlegt í mörgum ljóðum mínum frá þessum tíma að ég viti allt
um flúxus, samt er það þarna undir niðri og gægist víða fram í Ljóð vega
salti.
Það er í mér einhver blanda tveggja mjög ólíkra póla. Ofsi og rósemd.
Ég var lengi að láta þessi tvö öfl vinna saman. Það er afar ríkt í mér að
ganga skref fyrir skref en jafnframt er einhver ofsafenginn, allt af því
fanatískur uppreisnarandi, sem ég hef alltaf fundið fyrir. Ofsafengnar,
hraðskreiðar hugmyndir, eldingar og svo hins vegar jörðin sem maður
reynir að sá í og uppskera, slá og raka og taka upp jarðeplin og allt hitt
og maður vaknar bara á hverjum morgni, gáir til veðurs og heldur áfram
eins og bóndi eða kannski vonandi gentleman farmer, er það ekki
betra?
Lítum aðeins á lítið ljóð, „Fiðla og skógur“, það er ort á menntaskóla-
árunum, á sinfóníutónleikum í snöggu ljóðkasti, allt að því ljóðrænu
flogakasti. Ég laumaðist til að skrifa það í vasabók í sæti mínu og birti
það nánast alveg óbreytt. Tónlistin sem hljómsveitin spilaði var eftir
Brahms. Þarna er einhver samsláttur, náttúrubarn úr Skinnastaðarskógi
er komið á sinfóníutónleika.
Ég man enn djúpan fögnuðinn á tónleikunum og líka hvað mér
fannst þetta ljóð vera fátæklegt í samanburði – ekki í samanburði við
Brahms, ég var ekki í samkeppni við hann; nei, í samanburði við fögn-
uðinn sem ég fann fyrir innra með mér.
„Þegar talið berst að Hinum guðdómlega gleðileik tala menn alltaf um Inferno.
Manni finnst stundum eins og það sé orðið lífshættulegt að standa með lífsgleðinni.
Það er allt í veröldinni sem reynir að þagga niður í þeim sem minna á hvernig Hinn
guðdómlegi gleðileikur endar. Hann endar í Paradiso.“
(SP í viðtali í Fréttablaðinu 6.12. 2003)
Þarna er held ég kominn mikilvægur þáttur í skýringunni á því af
hverju ég hef alltaf haldið áfram að yrkja; það er einfaldlega vegna þess
að í raun finnst mér ég aldrei hafa náð að koma til skila einhverri upp-
hafstilfinningu sem liggur til grundvallar hverju einasta verki sem ég
hef skrifað. Tilfinningin, fögnuðurinn, oftlega að viðbættum einhverj-
um vitrænum skilningi; þetta allt hefur alltaf verið sterkara en greinar-