Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Qupperneq 18
S i g u r ð u r Pá l s s o n
18 TMM 2006 · 2
Hvernig finnst þér að lesa Ljóð vega salt núna?
„Ég stend við hvert ljóð, bæði í þessari fyrstu bók og þeim ellefu sem
á eftir komu. Ég lenti í þessari ótrúlegu tólfstafaaðferð við að skíra
bækur sem fór smám saman að fá meiri merkingu í huga mínum. En þó
að heitin yrðu að hafa tólf stafi náði ég mér á strik í fjölbreytileika við að
skíra einstaka flokka í bókunum, og sum þau nöfn gátu vel dugað á
heilar bækur. Væri til dæmis „Stigar og stjörnur“ ekki fallegt nafn á
ljóðabók? Væri hún ekki fullsæmd af því? Eða „Gluggar og dyr“?
„Skýjum ofar“? „Þýtt úr þögn“?
Mér hefur aldrei dottið í hug að snerta það sem ég hef gengið frá. Guð
forði mér frá því. Ég hef séð menn lokast inni – eins og í völundarhúsi
– innst inni í litlum hring. Það er alltaf matsatriði hvort hluturinn
batnar við breytingarnar, en það er eins og menn haldi að endalaust sé
hægt að yrkja upp sama ljóðið. Það er eins og þeir sem þetta gera haldi
að fullkomnun sé til, en það er engin fullkomnun til. Vonandi hins
vegar einhverjar framfarir.
Auðvitað er ég ekki jafnánægður með öll ljóð í öllum bókum, en
þegar líða tók á námuflokkinn var ég býsna ánægður með hann og svo
þann þriðja, línuflokkinn. Ljóðlínuskipið er besta heildin. Hún er hugs-
uð í bylgjuhreyfingu – að og frá, út og inn, en líka má lesa úr henni
sólarhringinn eða ævina. Þar að auki bendi ég á að það er eitt ljóð í
fyrsta kafla, tvö í öðrum, þrjú, fjögur, fimm, sex, sjö og átta í þeim síð-
asta! What do you want more?“
„Ljóðtímaskyn skiptist í fimm bálka: Ljóðtímaskyn, Burt, Söngtími, Svart-hvítt og
Stundir. Eflaust þykir einhverjum að hér sé afmarkaður ljóðtíminn, hann hefjist á
skynjuninni, nærist á útþránni, eflist í söngnum, magnist af andstæðum og kristall-
ist í stundinni. Má vera að svo sé, eður ei, en mestu máli skiptir að í gegnum þetta
ferli birtist hvert ljóðið öðru magnaðra. Því það er galdur í þessari bók, galdur sem
verður ekki fremur en galdur yfirleitt skilgreindur, aðeins skynjaður.“
(Geirlaugur Magnússon, DV 1.12. 1999)
Ertu heimspekilegt skáld – ertu að segja mér það?
„Nei, ég er stærðfræðingur – án stærðfræði. Föðurættin er stærð-
fræðingar, móðurættin verkfræðingar. Á köflum hef ég fengið snert af
númerólógískri stærðfræðiþráhyggju en hef aldrei náð henni á það flug
sem mig dreymir. Stærðfræði er ofboðslega ljóðræn og allt sem snertir
talnaspeki.“