Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 19
L j ó ð e r u a l l t a f í u p p r e i s n
TMM 2006 · 2 19
Hittumst í Háskólabíó
Nú erum við enn á ný komin út í móa, eins og Sigurður bendir mér vin-
samlega á. Við ætluðum næst að skoða það sem gerðist eftir að Ljóð vega
salt kom út sumarið 1975.
„Já, þarna var hún komin. ‚Voilà!‘ Og í ágúst, mánuði síðar, var komið
að því að skipuleggja aðgerðir. Það voru ótrúlega margir að gefa út á
þessum tíma og við létum berast út að þeir sem vildu vera með í aðgerð-
um mættu það. Við hittumst nokkrum sinnum niðri á Hressó og alltaf
fjölgaði í hópnum. Þegar við vorum orðin tuttuguog þrjú-fjögur var
nafn komið á hópinn – ekki man ég hver átti það: Ástmegir þjóðarinnar.
Við fengum Norræna húsið og ég var valinn kynnir. Alveg óvænt kom
svakalegur fjöldi, salurinn yfirfylltist, bókasafnið og anddyrið, og það
hafði ólík áhrif á skáldin. Þetta var í fyrsta skipti sem Geirlaugur Magn-
ússon las upp og mér er minnisstætt að þrengslin voru svo mikil að
hann lá hálfvegis undir púltinu meðan hann beið og titraði og skalf
allan tímann, mest auðvitað þegar kom að honum að lesa. Sumir freist-
uðust til að lesa of lengi. Dagur las heilar bækur tvær, hann tendraðist
upp við móttökur fyrstu ljóðanna og gat ekki hætt. Maður sá þann
merkilega hlut gerast að áheyrendur elskuðu hann í upphafi en hefði
hann ekki hætt þegar hann hætti þá hefði einhver tekið sig til og kyrkt
hann! Þetta var mjög lærdómsríkt.“
Gastu ekki gripið inn í sem kynnir?
„Í Dag Sigurðarson? Nei, það hefði verið eins og að stoppa Fidel Castro
í miðri ræðu! En þetta tókst sem sagt vel, fyrir utan óhóflega lengd sam-
komunnar, og í lokin þegar ég var að kveðja fólk þá hrökk upp úr mér,
algjörlega óhugsað: ‚Hittumst í Háskólabíó.‘ Það urðu áhrínsorð fimm
mánuðum síðar, í janúar 1976, á sögufrægri samkomu í Háskólabíó.
Við undirbúninginn að henni lagði ég áherslu á að við lærðum af
reynslunni og takmörkuðum fjölda þeirra sem kæmu fram og jafnframt
setja hverjum og einum grimman tímaramma. Og ég vildi ekki að við
gæfum öðrum vald til að velja úr hópnum heldur tækjumst á við það
sjálf. Og við værum með valinu ekki að útiloka neinn fyrir lífstíð og ekki
að búa til skáldaskóla, við værum bara að velja lítinn hóp til að koma
fram í þetta eina skipti. Þetta var hópur sem var mikið á móti því að vera
hópur. Reyndar gugnuðum við á því að koma bara einu sinni fram
vegna látlausrar og ofboðslegrar eftirspurnar utan af landi. Fyrst vorum
við voða tapper og sögðumst ætla að láta eitt skipti nægja, en fólkið hélt
áfram að hringja og lauk svo að við höfðum komið fram á einum fimm-
tán stöðum. Troðfylltum Sjallann á Akureyri til dæmis, flugum austur