Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 20
S i g u r ð u r Pá l s s o n
20 TMM 2006 · 2
á Höfn og þar var fullt, flugum í einkaflugvél á Blönduós með hinum
dásamlega menntamálaráðherra Vilhjálmi Hjálmarssyni og þar var
troðfullt, það var alls staðar troðfullt. En við vorum aldrei átta nema í
þetta eina skipti, alltaf færri eftir það.
Við vorum sem sagt átta sem urðum fyrir valinu og kölluðum okkur
Listaskáldin vondu til að ítreka að þetta væri annar hópur en Ástmegir
þjóðarinnar. Lengi ætluðum við að kalla okkur Listaskáldin góðu en
vorum aldrei ánægð með það; það var Eldjárnið sem barnaði nafnið. Það
gefur í skyn að við teljum okkur ekki nýja Jónasa og líka að við séum
kannski svolítið óþekk, reið eða pirruð. Þetta var vel lukkað nafn en það
hafa verið miklir erfiðleikar á að þýða það á önnur tungumál – þar vantar
auðvitað tilvísunina til Jónasar. Skásta þýðingin er „Lárviðarskáld án lár-
viðar“. Meiningin var sú að við værum listaskáld en því miður ekki góð!“
Rifjaðu upp með mér hver þessi átta listaskáld voru.
„Já, það voru Steinunn Sigurðardóttir og Pétur Gunnarsson sem varð
þarna til sem metsöluhöfundur á korteri. Hann las úr Punktur punktur
komma strik og það er til fræg mynd af Vilhjálmi Hjálmarssyni á
fremsta bekk, alveg í keng af hlátri. Sama kvöld, þegar Pétur var
nýkominn heim, þá hringdi tuttugu og þriggja ára gamall drengur í
Vesturbænum og spurði hvort það væri nokkuð kominn útgefandi að
bókinni. Það var Jóhann Páll Valdimarsson. Þetta var gaman fyrir Pétur
en líka gæfa Jóhanns Páls að fá að gefa fyrstu bækur Péturs út. Svo voru
Þórarinn Eldjárn, Guðbergur Bergsson – hann var ídolið okkar og við
buðum honum með þó að hann væri kominn á fimmtugsaldur –, Hrafn
Gunnlaugsson, Birgir Svan, Megas og ég.
Það merkilega er hvað þessi hópur var laus við að vera einsleitur. Þetta
eru ekki bara karlar af því það var ein kona, þetta voru ekki bara ljóð af
því Pétur las sögu, þetta var ekki bara fólk undir þrítugu af því einn var
kominn yfir fertugt, þetta var ekki bara lesinn texti af því einn söng,
alltaf var einn sem skar sig úr hverri skilgreiningu. En við vorum einkum
fjögur á sama aldri og skyld í anda, Steinunn, Pétur, Þórarinn og ég. Það
er einmitt um okkur sem stimpillinn „fyndna kynslóðin“ verður til, upp-
haflega sem skammaryrði eins og fleiri bókmenntasögulegir stimplar.
Þessi samkoma var ótrúleg lífsreynsla – maður vissi ekki hvað var að
ske. Hún átti að hefjast klukkan tvö síðdegis á laugardegi. Við fengum
salinn á góðu verði en urðum að vera farin í tíma fyrir fimm bíó. Þetta
var stóri salurinn sem tekur þúsund manns í sæti, í þá daga var hann
eini salurinn í Háskólabíó, og tuttugu mínútum fyrir tvö voru þrjátíu
manns í salnum. Okkur leist ekki á blikuna. Svo varð sprenging. Lauk
svo að í húsinu voru fjórtán hundruð manns!