Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Qupperneq 26
S i g u r ð u r Pá l s s o n
26 TMM 2006 · 2
eftir minn dag. Láta finnast svona kistu eins og hjá Fernando Pessoa.
Svo fannst mér það einum of áreynslufullt, fyrir nú utan hvað mig lang-
aði í viðbrögð lesenda. Við erum þrátt fyrir allt í þessu til að miðla ein-
hverju og þá er gaman að vita hvernig menn hafa upplifað það, aðallega
til að læra eitthvað af því. Eftir því sem árin líða finnst mér þetta hugtak
og hugsun verða mikilvægari: miðlun.“
En þessi brot sem þú varst að skrifa hjá þér, rötuðu þau inn í skáld-
sögurnar þínar?
„Smábrot úr þeim varð að Parísarhjóli, annað prójekt varð að Bláum
þríhyrningi og það þriðja að Næturstað. Ekki vantar áformin og grunn-
teikningarnar, guð minn almáttugur. Vandinn sem ég lenti í með Næt-
urstað var að ég byrjaði að sýna það handrit allt of snemma. Ég sýni
yfirleitt ekki neinum neitt fyrr en ég er búinn, klára bók og segi þá bara
eins og Sigfús Daðason: „Voilà!“ Næturstaður varð erfiðasta ferðalagið,
út af þessu.“
Mér finnst einhvern veginn skáldsögurnar þínar, kannski fyrir utan
Parísarhjól, mun alvarlegri en ljóðin. Það er eins og kímnigáfan sé ekki
eins virk í þeim og ljóðunum.
„Hver andskotinn. Ég verð að huga að þessu, þetta kemur mér á óvart.
Já, kannski er það að einhverju leyti sú staðreynd, að ég er „ungur og nýr
skáldsagnahöfundur“ – sem ljóðskáld hef ég meiri reynslu og get
kannski leyft mér að vera afslappaðri, ég veit það ekki. Kannski er þetta
bara sú staðreynd, að ég er frekar alvarlegur karakter, hefur það farið
fram hjá þér?
Ég er reyndar, held ég, afar lífsglaður maður, en lífsglaðir menn eru
næmir fyrir harmi. Maðurinn er eina dýr jarðarinnar sem hefur vitund
um dauða sinn.
Það sem gerist eftir að ég fer að skrifa skáldsögur er að ljóðin urðu,
alla vega hingað til, meira abstrakt, persónur og staðir hafa vikið meira
úr ljóðunum, þeirra staður verður skáldsagan en allt er þetta í stöðugri
mótun, vinnslu…
Ég veit ekkert um framtíðina. Veit það eitt að við Skaftfellingar erum
oft seinþroska. Nafni minn Nordal sagði skilst mér í sextugsafmæli
Þórbergs að honum segði svo hugur að afmælisbarnið ætti óskrifaðar
sínar bestu bækur. Það héldu víst allir á staðnum að Nordal hefði fengið
sér of mikið af veitingunum. En þetta er kannski rétt þegar öllu er á
botninn hvolft, að síðasta tímabil Þórbergs sé hans besta.“