Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 27
L j ó ð e r u a l l t a f í u p p r e i s n
TMM 2006 · 2 27
Í listum kemur aldrei maður í manns stað
„Var ég búinn að segja þér ástæðuna fyrir því að ég gaf ekki út prósaverk
fyrr en raun ber vitni? Orsökin er einföld: ég vildi ekki yfirgefa ljóða-
vettvanginn. Ég vildi berjast þar, sýna að minnsta kosti og helst sanna
að ljóð væru fullgild bókmenntagrein, algjörlega. Ég vildi ekki flýja yfir
í skáldsöguna eins og flestir hafa gert, hvort sem það nú hentar þeim
sem höfundum eða ekki. Ég kaus að svara ekki neinum árásum nema
konkret, með því að yrkja og birta ljóð. Margt er líka ekki svaravert af
því sem sagt er og skrifað um ljóð, gjarnan íslenska aðferðin, fordómar,
skortur á athugun á umtalsefninu og sleggjudómar í einni kös. Ég hef
ekki þolinmæði í slíkt. Af tvennu illu finnst mér skárra að bíta á jaxlinn
og reyna bara að sýna eitthvað í verki.
Nú, ef við skoðum þetta nú aðeins í samhengi, hvað sjáum við? Við
sjáum afar fjölbreytilega listgrein, ljóðlistina, sem á sér óslitna og
skrautlega sögu, allt aftur í biblíuna og ýmis önnur grundvallarrit í
okkar vestræna menningarheimi, einna lengstan þráð óslitinn hins
vegar í Kína, hreint ótrúlegan raunar, fimmþúsund ár.
Í íslenskum bókmenntum er ljóðlistin eina samhengið, þ.e.a.s. í skáld-
skap. Svo er kannski visst samhengi í grafómaníu, skrásetningarbrjál-
æði og annálaritun þjóðar þar sem skrift og lestur hefur alltaf verið
almenningseign, sem er reyndar algjörlega furðulegt og eini fjársjóður
þjóðarinnar.
Er það virkilega einskis virði að leggja svolítið á sig til þess að taka
þátt í þessu ævintýri ljóðlistarinnar sem er kjarni ævintýrisins um
samhengið? Ef það er rétt að ljóðið sé dautt, þá er hjarta þess ævintýris
dautt, ljóðlistin í öllum sínum fjölbreytileik sem hefur stöðugt haldið
áfram að þróast. Í þeirri þróun felast lífslíkurnar.
En það eru tveir aðalleikendur á þessu sviði, skrift og lestur. Skrifarar
og lesendur. Hinir síðarnefndu stunda líka skapandi starf og það verður
líka að gera einhverjar lágmarkskröfur til þeirra. Jafnvel þótt það sé
andstætt tíðarandanum sem miðar að því að gera okkur að neytendum
þegar við eigum að vera njótendur. Njótandi er frjáls, skapandi,
erótískur. Neytandinn þræll, viljalaus, klámfenginn.
Forsendan fyrir eðlilegri endurnýjun er sú, að þeir sem hafa talent séu
tilbúnir að taka ljóðagerð alvarlega, gefa henni alla krafta sína, orku og
líf. Alveg til enda, ekki bara smátíma. Það er mikils virði að sjá skapandi
vitund sem heldur áfram, áratugum saman, sjá þessa heild verða til.
Nýleg dæmi: Þorsteinn frá Hamri og Matthías Johannessen.
Það eru menningarverðmæti að sjá lifandi, skapandi vitund takast á