Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 28
S i g u r ð u r Pá l s s o n
28 TMM 2006 · 2
við jafn fáránlega mikla sviptingatíma og síðustu fjörutíu til fimmtíu ár.
Það eru líka verðmæti fólgin í tímaritum sem spanna langt skeið og hafa
þar með þennan tímafaktor. Ég er áskrifandi að tveimur frönskum
tímaritum sem koma út ársfjórðungslega og breyta engu í ytra útliti. Ó,
hve dásamlega frískandi og óíslenskt! Á tímum upplausnar í fjölmiðlun
er ágætt að minna á þá staðreynd að alvöru bókmenntatexti er eilífur.
En lítum aðeins á til dæmis síðustu fimmtíu ár í íslenskum bók-
menntum. Það skyldi þó aldrei vera að landsliðið í ljóðlist væri bæði
fjölbreytilegra og sterkara en nokkurn órar fyrir, þá er ég bæði að tala
um magn, þ.e. fjölda höfunda, og gæði. Er landsliðið í öðrum greinum
jafn fjölbreytilegt? Og er það jafn fjölmennt? Ég efast um það. Þannig að
maður veit hreinlega ekki á köflum um hvern fjandann er verið að tala.
Sölutölur, staðsetning á tímabundnum sölulistum hafa aldrei skipt
nokkru einasta máli í raunverulegu lífi, ég tala nú ekki um langlífi,
bókmennta. Aldrei. Það er ekki nokkur vandi að sýna fram á það.
Nú, á sama tíma verða forlögin og allur mekanisminn að lifa af, ég veit
það vel, þannig að sölulistasirkusinn og annar sirkus mun halda áfram.
En gleymum okkur samt ekki alveg í samkvæmisleikjum.
Svo væri ágætt ef menn vildu gjöra svo vel að misskilja mig ekki né
heldur snúa út úr; auðvitað eiga góðar bókmenntir það líka til að seljast
vel. Sem betur fer.
Þessi eining er svo lítil, fámenn heild allt saman, íslenskt bókmennta-
líf, íslensk menning, að það má engu muna að það bara hrynji allt
saman. Í bókmenntunum er hópurinn sem gegnir lykilhlutverki ein-
hvers staðar innan við hundrað manns.
Við megum ekki missa einn einasta einstakling sem eitthvað getur. Í
listum kemur aldrei maður í manns stað, það kemur bara nýr maður
sem er allt annað. Við megum heldur ekki við því að hver og einn fari
ekki fram úr sjálfum sér í hverju verki, reyni það að minnsta kosti, þess
utan verðum við jafnt og þétt að fá til leiks fleiri talenta sem eru tilbúnir
í slaginn.“
Silja Aðalsteinsdóttir