Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 29
TMM 2006 · 2 29
Guðmundur Andri Thorsson
Ljóðaljóðin
Um ljóða-flokk Sigurðar Pálssonar
Kettir og gluggarúður, dúfur, stjörnur, speglar og tré, dans og appelsínur
skjóta víða upp kollinum í ljóðum Sigurðar Pálssonar – svona til að
nefna eitthvað úr óvenju opnu og auðugu táknkerfi sem smám saman
hefur vaxið fram í landnámi Sigurðar. Þar er líka fólk með sinn farang-
ur. Og auðvitað borgin: Sigurður er Reykjavíkurskáld okkar daga og
hefur manna best náð að fanga í ljóði þetta strjála þéttbýli: „öskugráa
þokubakkana“ yfir Esjunni, „hörku morgunvindsins“, strætó númer
fjögur og strætó númer fimm, sviðakjammann á umferðarmiðstöðinni,
börnin í parís á Tómasarhaganum (sem spegla börnin í París í parís) –
„nötrandi einsemd nístingskuldans á berangri höfuðborgarleikritsins“,
,,pylsubréf og formlaus ærslin“ í miðborgarblús næturinnar – stóra tréð
í garðinum sem haggast ekki á Café Hressó. Í ljóðum Sigurðar togast á
fjarskinn og nærveran – hreyfingin og kyrrstaðan: París með sagnrík-
um götum sínum og Reykjavík með allt sitt rok; lífmagnið og frjósemd-
in í suðrinu og „ormlaus“ tign norðursins. Í þessum ljóðum mætast
fjöllin og flatneskjan; landið og hafið – nóttin og dagurinn, sem reynd-
ar sameinast í ljóðrænni galdrastund í ljóðinu „Morgunstund“ í Ljóð
námu völd, einu af þessum „ljómunum“ í anda Rimbauds hjá S. P. sem
miðlar vitrun skálds og slær birtu á huga lesandans svo að þeir sem lesa
– þeir gleyma því ekki.
Og ekki síst agi með ókyrrð, formföst ærsli. Aðferðin er oft óræður
skýrleiki, íbyggin jafnvel rökvísleg fjarstæða. Hömluleysi samkvæmt
vandlega skipulagðri ráðagerð: Sigurður Pálsson er reglufastur flugum-
ferðarstjóri eigin hugmynda, hinn stjórnlyndi anarkisti. Í pistli til les-
enda sinna víkur hann að samstarfi andstæðra póla:
Ég hef mikið hugsað um sköpunarstarfið, hvað gerist. Ég finn fyrir þessu, sé
þetta fyrir mér sem samspil eða átök tvenns konar orkufyrirbæra. Annars vegar
skipulagsorku og hins vegar flæðiorku, annars vegar farvegur, hins vegar flæði.1