Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 30
G u ð m u n d u r A n d r i Th o r s s o n
30 TMM 2006 · 2
Í lítilli orðsendingu á kápu bókarinnar Ljóðlínudans segir Sigurður líka
að ljóð sín séu grundvölluð á umhugsun um ástina og harminn, fögn-
uðinn og trúna. Ekki þykir góð latína að þrátta við höfundinn um það
sem hann hefur sett saman en þetta með trúna kemur samt svolítið á
óvart og reyndar kemur orðið „trú“ ekki oft upp í hugann þegar ég les
ljóð Sigurðar – að minnsta kosti ekki í hefðbundnum kristilegum skiln-
ingi því að ég held ég hafi hvergi rekist á annan guð á ráfi mínu um
þennan ljóðheim en sjálft hið atorkusama skáld. En ef maður setur
annað þriggja stafa orð í staðinn – „von“ – þá er þar komið eitt af lykil-
orðunum í ljóðheimi Sigurðar Pálssonar. „Þrá“ er annað þriggja stafa
orð: Kristján Þórður Hrafnsson hefur orðað vel þetta einkenni á skáld-
skap Sigurðar, sem er von blandin þrá eftir því að fyrirbærin sem verða
á vegi okkar séu lofsverð, hafi merkingu og inntak, svo úr verður hrif-
næmi – eða eigum við heldur að segja hrifviljinn? „Ef það er einhver ein
lýsing sem á betur við skáldið Sigurð Pálsson [segir Kristján Þórður] þá
er hún sú að hann sé lofsöngvari, haldinn ríkri en kröfuharðri ást til
lífsins. Sú tilfinning sem einna oftast virðist knýja hann til að yrkja er
hrifningin. Hann vill dásama og hylla.“2
Sigurður Pálsson er ljóðneminn; hann nemur hvaðeina sem fram fer
í umhverfi okkar – ytra sem innra – hrífst – og hrífur: skilar því til
okkar í ljóði. Ljóð hans eru stutt og löng, frjáls og bundin, galsafengin
og harmþrungin, opin og dul, mælsk og íbyggin. Sum þeirra búa yfir
andríki útleitninnar, önnur yfir sprengikrafti miðleitninnar. Manni
finnast þau ort af óbrigðulu formskyni, þau virðast fullsmíðuð, hvorki
of löng né stutt. Í veigamestu greinargerðinni sem til er um skáldskap
Sigurðar hefur Eiríkur Guðmundsson kallað hann „skáld hreyfingar-
innar“ og hittir naglann á höfuðið, heldur svo áfram: „ferðarinnar, eins
og glögglega kemur fram í titlum bóka hans. Í þeim er vísað til vega,
náms og línu; lestur ljóðanna felur í senn í sér ferðalag um kunnuglegar
slóðir hversdagsleikans og landnám í margfaldri merkingu […] Að baki
ljóðanna býr ekki kyrrstæð sýn heldur sveifla, vegasalt, hringferð, línu-
dans, sigling, táknmyndir sem vísa til ójafnvægis eða leitar.“3
„Ljóða“-bálkurinn er tólf bækur og liðu tuttugu og fjögur ár á milli
útkomu fyrstu bókarinnar í fyrsta flokknum og fyrstu bókarinnar í síð-
asta flokknum. Þetta er með öðrum orðum „Funheit stærðfræði“ eins og
segir í ljóðinu „Tvíeðla“ í bókinni Ljóðtímaskyn. Allt gengur upp í töl-
unni tólf. Þetta eru fjórir þriggja bóka flokkar. Í heiti hverrar bókar eru
þrjú fjögurra stafa orð, þar af eitt tvíkvætt sem er ævinlega haft í miðj-
unni í heiti bókanna svo að samhljómur heitanna styrkist: da-dada-da
– (og myndi henta prýðilega í slagorð í kröfugöngu, eins og fólk gæti