Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 32
G u ð m u n d u r A n d r i Th o r s s o n
32 TMM 2006 · 2
í þessu margræða orði er svo sótt til Egils sem orti í Sonatorreki um það
hversu þungt væri að hræra loftvægi ljóðpundarans: ljóð vega þungt.
Eftir ljóðvegavinnuna er haldið niður í námurnar og reynt að grafa
upp úr þeim verðmæti. Eftir alla þá þungavinnu eru samgöngumál ljóðs-
ins aftur á dagskrá, nema nú er haldið út fyrir hringveginn, út á litlu
afvegina, hinar dansandi og fínlega dregnu línur á vegakortunum, svo
að myndin verður fyllri, blæbrigðin fleiri, leiðirnar krókóttari. Og loks
er þá kominn tími til að bæta nýrri vídd inn í þennan veruleika sem
búið er að skapa – sjálfum tímanum: hans er leitað, hann er skynjaður
og loks er ekið á sjálfum Ljóðtímavagninum um ljóðvegina og eftir ljóð-
línunum – burr og burt úr þessum ljóðheimi.
Ýmsir þeir sem ritað hafa um ljóð Sigurðar – til dæmis Eysteinn
Þorvaldsson, Eiríkur Guðmundsson og Úlfhildur Dagsdóttir – hafa lýst
innkomu Sigurðar í íslenskri ljóðagerð sem nokkurs konar uppreisn, og
hafa þá atómskáldin verið nefnd sérstaklega í því sambandi, og talar
Úlfhildur meira að segja um að ljóð Sigurðar hafi verið „hressandi lesn-
ing í kjölfar einfaldra mynda atómljóðanna“.5 Þetta er ekki skrýtið –
tónninn í fyrstu bók Sigurðar er óvenju þroskaður, og var það strax
þegar hann aðeins átján ára birti ljóð í Birtingi, málgagni módernista –
svo helst er til æskuverka Hannesar Péturssonar að jafna. Öll merk skáld
bylta líka merkingarheiminum sem fyrir er, ryðja nýju tungumáli braut,
nýjum yrkisefnum, koma með ný orð handa nýjum degi.
Hins vegar er ekki alveg ljóst hvaða skáld Úlfhildur hefur í huga þegar
hún sér fyrir sér hinar „einföldu myndir atómljóðanna“. Slík lýsing á
raunar ekki sérlega vel við ljóðstíl til dæmis Stefáns Harðar Grímssonar
eða Sigfúsar Daðasonar – að ekki sé talað um Hannes Sigfússon – og
almennt talað kann að vera varasamt að draga öll atómskáldin í einn
dilk. Sjálfur las ég sem unglingur ljóð Sigurðar og Sigfúsar Daðasonar
jöfnum höndum og skynjaði alltaf sterkan samhljóm með þeim, sem
höfðaði sterkt til mín. Raunar hefur mér löngum fundist Sigurður
skyldastur þessum fyrirrennurum sínum af sinni kynslóð, án þess að ég
eigi auðvelt með að benda á eitthvað eitt sem sýni fram á þann skyld-
leika; finnst að með ljóðum hans hafi átt sér stað visst afturhvarf til
einmitt flóknara myndmáls og fjölbreytilegri aðferða eftir tíma „hins
skorinorða ljóðs“ Dags Sigurðarsonar og Ara Jósefssonar og sporgöngu-
fólks þeirra sem lagði áherslu á félagsleg erindi sín. „Hið opna ljóð“ þar
sem hversdaglegri tilveru var miðlað á hversdagslegu máli átti líka mjög
upp á pallborðið um miðjan áttunda áratuginn, og má kannski líta á ljóð
Sigurðar sem nokkuð eindregna uppreisn gegn einföldu myndmáli og
friðsælu hugmyndalífi þess skáldaskóla.