Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 34
G u ð m u n d u r A n d r i Th o r s s o n
34 TMM 2006 · 2
leiddi með þeim um síðir „hið bítlalega“ í íslenskar bókmenntir. En hafi
sú verið raunin – þá kom Sigurður Pálsson með Stóns.
En hvað sem slíkum vangaveltum líður þá er það ljóst að með Sigurði
Pálssyni kom alveg ný rödd í íslenska ljóðagerð – nýr náungi var mættur
á svæðið, fíngerður og ljóðrænn, fyndinn og skýr, háttvís og dularfullur:
„ég fikra mig eins og sól inn í vitund dagsins / þreifa mig dreginn úr
ilmvötnum draumsins…“ Þannig hefst höfundarverkið: hann fikrar sig
eins og sól. Þeir sem hafa hlýtt á skáldið lesa þekkja hið örfína hik eins
og vakið af nánari umhugsun sem setur sína sérstöku vídd í ljóð Sig-
urðar og setur líka sína hrynjandi innra með lesanda sem er samtíma-
maður Sigurðar. Og snemma kom fram að hann á til ólíkindalæti sé
hann krafinn um lausnir og svör – snemma harðneitaði hann að færa
okkur heim sanninn. Á miðri ferð sinni á hringvegi ljóðsins er hann
spurður til vegar af töluverðum hnappi af fólki:
[…] og fálm- hik- og fumlaust
tek ég upp
Öxarfjarðarheiðarljóðvegavinnuverkfærageymsluskúrlykilinn
opna hjallinn
kasta teningnum
Upp kemur sjöundi flöturinn
með ljóðtölunni leyndu
og ég bendi með sjötta fingri
í fimmtu höfuðáttina
Einbeitta svalandi síþráða
ljóðveginn
Einu og sjaldséðu
höfuðáttina
„Ljóða“-bækurnar urðu sem sagt tólf. Ljóðin skipta hundruðum – ég hef
ekki tölu á þeim en á allt eins von á því að hún sé margfeldi af tólf. Þetta
er alltaf sama röddin. Þegar maður fikrar sig áfram í heimi bókanna
rekst maður kannski aftur og aftur á ketti og glugga, tré og vindinn,
spegla og stúlkur í peysum og appelsínur í framhaldi af því, lestir, stræt-
isvagna, bernskuna í norðlenskri sveit og hugtök sem sett eru sífellt í
nýtt og undravert samhengi. Sama röddin, þrásækin stef, og samt er til-
finningin sem situr eftir hjá lesanda hversu margbrotið skáld Sigurður
er, öll auðlegðin, skáld á sífelldri ferð sem verður allt að ljóði, allt að
veruleika á leið sinni í einu og sjaldséðu höfuðáttina.