Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 38
E i r í k u r Ö r n N o r ð d a h l
38 TMM 2006 · 2
Brjálaði vísindamaðurinn: Christian Bök
Christian Bök er Kanadamaður sem heimsótti Ísland síðastliðið sumar
á alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils og er höfundur einhverrar merkustu
avant-garde ljóðabókar sem komið hefur út síðustu áratugi: Eunoia.
Verkið Eunoia, sem tekur yfir fyrstu fimm kafla bókar með sama nafni
og telur um 80 blaðsíður, er „einhljóða lipogram“1, þ.e. hver kafli verks-
ins inniheldur einungis einn sérhljóða. Eunoia er stysta orðið í enskri
tungu sem inniheldur alla fimm sérhljóðana, og er hver kafli verksins
helgaður einum sérhljóða. Fyrst A, þá E, I, O og loks U. „Textinn býr til
sýsifosískt sjónarspil úr eigin erfiði, bæklar tungumál sitt viljandi til
þess að sýna fram á að jafnvel við þetta ólíklega þvingaðar aðstæður, geti
tungumálið enn tjáð kynlegar, ef ekki háleitar, hugsanir. Textinn fylgir
auk þess mörgum undirreglum. Í öllum köflum skal vísað til ritlistar-
innar. Í öllum köflum skal lýsa matarveislu, lostafullu svalli, svipmynd
úr sveitalífi, og sjóferð. Í öllum setningum skal lögð áhersla á innrím
með því að notast við setningarfræðileg líkindi. Í textanum skal stefnt
að því að nota öll orð orðabókarinnar, sem nota einn sérhljóða, vísað
skal til að minnsta kosti 98% þeirra orða sem eiga við (þó fáein orð hafi
ekki reynst nothæf, þrátt fyrir að reynt hafi verið að finna þeim stað:
parallax, belvedere, gingivitis, monochord, og tumulus). Í textanum skal
leitast við að lágmarka endurtekningu orða (svo að, ef allt væri eins og
best yrði á kosið, hvert orð birtist aðeins einu sinni). Bókstafurinn Y er
ekki notaður.“2
Christian Bök er undir miklum áhrifum frá Oulipo hreyfingunni, en
gengur þó svo langt að segja að þeim hafi nánast mistekist í sínum til-
raunum. Eunoia er ætlað að sýna að ekki einungis sé tungumálið nógu
voldugt verkfæri til að hægt sé að nota það til tjáningar við erfiðustu
formskilyrði, líkt og Oulipo-menn gerðu, heldur sé beinlínis hægt að
nota það til himneskrar tjáningar. „Þegar menn grundvalla starf sitt á
takmörkununum virðast þeir oft gleyma öðrum bókmenntalegum
umhugsunarefnum (eins og hljómfegurð, merkingu, o.s.frv.) þannig að
árangur slíkra tilrauna minnir helst á framkvæmd vanaverks (eins og að
skrifa 14 línur, bundnar og rímaðar, og kalla það sonnettu, jafnvel þó
ljóðið skorti öll ljóðræn tilþrif). Oft nýta verkin svo illa möguleika sína,
að manni þykir þau ekki vitund áhugaverðari en klaufalega framkvæmd
töfrabrögð. Hópurinn virðist þar að auki alls óáhugasamur um að kanna
pólitíska möguleika þess að þvinga sig til að skrifa undir hömlum, til
þess að afhjúpa hugmyndafræðilega undirstöðu slíkrar samræðu.“3
Bök dugar ekki að geta búið til skiljanlegar setningar, þær þurfa einn-