Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 47
F j ó r a r g e r l a p r u f u r ú r f r a m a n d i f r a m ú r s t e f n u l j ó ð l i s t
TMM 2006 · 2 47
því inn í hefðbundinn upplestur hjá sér. Viðbrögðin létu ekki á sér
standa, áheyrendum fannst ljóðið stórkostlegt. Þetta varð til þess að
Gary Sullivan fór að velta fyrir sér „gæðum“ almennt, og hvað það væri
sem ylli góðum viðbrögðum við flarfi.
Flarf-skáldin héldu áfram að skrifa og lesa upp flarf-ljóð næstu mán-
uðina, en eftir ellefta september fækkaði ljóðunum skyndilega mikið og
þegar þau byrjuðu aftur að takast á við flarfið var það skyndilega fullt af
pólitísku lingói tímans: Washingtonísku. Út úr því komu verk eins og
„… Let’s rebuild the Twin Towers in NY … on your pizza“17 eftir Katie
Degenesh, og fleiri af sama meiði.
En jafnvel án tengingar við samtímastjórnmál (eða altímastjórnmál)
á borð við ellefta september og þá orwellísku tegund tungumálavíruss-
ins sem stríðið gegn hryðjuverkum (sem heitir víst nú „stríðið langa“)
hefur kallað fram í sviðsljósið er ljóst að verklag flarfista er hápólitísk
árás á tungumálið. Flarfið á bókstaflega heima handan góðs og ills, og
kemst þangað með því að snúa upp á hin viðteknu gildi án þess að snúa
sér að afstöðuleysi, með því hreinlega að velja sér allt það asnalegasta í
veröldinni og sækja fram með einkennilegri blöndu kaldhæðinnar ein-
lægni.
Árásin er merkilegt nokk – annað en t.d. innrásin í Írak – ekki
„preemptive“, ekki varnarárás án tilefnis. Tungumálið réðst fyrst á
mannfólkið, og flarfistarnir voru framvarðarsveit fáránleikans sem
fleygði fyrst handsprengjunum og svo sjálfum sér ofan á þær. Við síð-
ustu aldamót hafði markaðurinn innlimað allt andspyrnutungumál í
sjálft sig og gert úr því auglýsingatexta – þar sem frelsi snýst ekki síst um
að fá að borga fyrir að tala í síma.
Einn flarfista, Mike Magee, hefur bent á eftirfarandi dæmi um árás
tungumálsins á þá sem tala það: Á áttunda áratugnum upplýsti tónlist-
armaðurinn Gill Scott Heron heimsbyggðina um að byltingunni yrði
ekki sjónvarpað, og rappaði „The revolution will not be televised/the
revolution will be live“. Árið 1995 sneri „róttæki“ rapparinn KRS One
svo upp á textann í Nike-auglýsingu og rappaði lokalínurnar: „The
revolution is basketball/and basketball is the truth“. Þannig hefur
mannskepnan mátt horfa á eftir hugsunum sínum í gin skepnunnar, þar
sem orðið verður til og sé það metið nokkurs verður tilveru þess breytt
í fé – útúrsnúningurinn verður alger.
Bylting er orð sem er vart notað í dag utan auglýsinga, það hljómar
kjánalega í öllu alvarlegu samhengi enda hefur því verið rænt. Það er
ekki lengur mannskepnunnar heldur markaðarins. Tom Waits samdi
ádeilu á auglýsingaslagorð með heitinu „Step right up“. Texti lagsins er