Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 51
TMM 2006 · 2 51
Kristín Ómarsdóttir
Einu sinni sögur
#9
Áður en ég komst til manns vann ég á pósthúsi og bjó svo vel að
eiga spegil sem var þeirrar náttúru að ef ég brá honum að merktu
og læstu umslagi birti spegill mér innihald þess. Þannig las ég oft
ókunnug ástarbréf, aðdáendabréf og bréf með reikningum og
áskorunum. Eftirfarandi ástarbréf jafn lítið ógleymanlegt sem
önnur: Ef þú nú yfirgefur mig mun ég aldrei ná mér og mun gera
mitt besta þaðan í frá til að kynnast ekki nýju fólki sem gerir
ekkert annað en að skella hjartanu mínu aftur á grillið. Ég vil ekki
enda á steikingarpönnu. Renna saman við hinn sameiginlega
pytt mannlegra tilfinninga. Að eilífu verð ég einungis ástin
þín. O.s.fr.v. En dag einn, einsog svo marga aðra í vinnunni við að
flokka póst, tók ég spegilinn upp og lék mér að því að gægjast inní
nokkur bréf afþví mér leiddist og var í og með að leita að einhverju
bitastæðu sem myndi færa mér sönnur fyrir því að ég væri á réttri
leið og að annarra leiðir væru andlausar, óhollar og slæmar. En þó
ég slæddist í sitthvað spennandi leiddist mér þó, sama jukkið:
Ég elska þig. Þú ert sætasta geitin í heiminum. Komdu fljótt, ég
þarfnast þín. Fáum okkur saman ostrur í hádeginu á fimmtudag-
inn. Afsakið, ég kemst ekki á stefnumótið í kvöld en ég á ekkert
hreint að fara í og vil síður að þér hittið mig í skítugum fötum.
O.s.fr.v. Þangað til ég sá þetta: Orðin voru búin til fyrir fólk sem
vill hlusta. Þess vegna skrifa ég þér. Afþví ég man svo vel þegar þú
sagðir við mig: Viltu tala í alla nótt og ég hlusta. En þó mín rituðu
orð muni birtast þér hér í bréfinu án raddar má segja að þau séu
einsog pakkasúpan áður en ég kem til þín og laga handa þér
fiskisúpuna, manstu, kakómalt í stað súkkulaðisins sem verður að
fá að bíða … Nú reif ég upp bréfið því ég ruglaðist í ríminu við