Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 53
E i n u s i n n i s ö g u r
TMM 2006 · 2 53
inum einsog ég hafði séð í kvikmyndum á sokkabandsárum
mínum. En mest af öllu elskaði ég kaffipásurnar en þær fékk ég
þrjár á dag samkvæmt lögbundnum samningi. Þá dró ég mig í hlé
inni á starfsmannaklósettinu, dáðist að spegilmynd minni, settist
niður og lét hugann reika fyrst til fjölskyldu minnar sem ég hafði
yfirgefið fyrir sjálfstæðið og fullorðinsaldurinn. Þegar ég hafði
beðið fyrir farsæld hennar flutti ég mig til og heimsótti í huganum
hinar ólíku íbúðir sem ég hafði frá upphafi minnisins stigið fæti
mínum inní. Á þessum einkastundum uppgötvaði ég yfirgrips-
mikið safn sem hugur minn hafði reist svo að segja án minnar
vitundar og varðveitti allar þessar íbúðir og stærstu sem minnstu
smáatriðin inní þeim. Þar fyrir utan sem safnið heimtaði ekki af
mér aðgangseyri eða hvað. Dag einn kom svo að þeirri úrslita-
stundu að hugurinn minn krafðist þess af eiganda sínum að hann
stækkaði safnið og sagði ég því starfinu á kaffistofunni lausu og
réð ég mig til vinnu við heimilishjálp hjá voldugu hreingerninga-
fyrirtæki. En ekki var þetta auðveld ákvörðun að yfirgefa hina
þægilegu viðskiptavini, samstarfssystkini mín og gullhamrana
sem mér voru daglega slegnir af örlæti. Öll brosin þessa hungraða
fólks hvers hungur ég hjálpaði við að seðja með því að taka niður
pantanirnar, flytja þær inní eldhúsið til kokksins, bíða eftir að
óskir viðskiptavinanna rættust einsog fyrir galdur á pönnunni í
töfrandi höndum kokksins, þegar nokkur orð í minnisblokk
breyttust í óskamálsverð á bakka sem ég var síðan manneskja til
að flytja aftur tilbaka, á upphafsreit. Það er ekki vitlaust að segja
að á kaffistofunni hafi ég unnið á landamærum hugmyndar og
hlutar, sendiboði á milli draums og veruleika, svo að óskir magans
mættu rætast. Auðvitað var það ekki auðveld ákvörðun að fylgja
köllun sinni, köllun safnsins innra með mér, svo ég gæti safnað
inní það fleiri forstofum, setustofum, borðstofum, eldhúsum, bað-
herbergjum, svefnherbergjum, öldunga og sjúkra sem í neyð
þyrftu á hreingerningarleidí einsog mér að halda. Svo þegar ég
verð loksins gömul mun ég heimsækja safnið mitt daglega. Einnig
á mánudögum. Ókeypis aðgangur eða hvað.