Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 55
E i n u s i n n i s ö g u r
TMM 2006 · 2 55
föstudagskvöldið þegar ég sá hann koma gangandi á móti mér,
prins í leðurjakka og rauðum skóm. Með snörpu augnaráði kveikti
hann sér í sígó er hann sá mig en ég leit í einu hendingskasti til
himins, þakkaði Guði fyrir vel unnin störf og þá hugmyndaauðgi
að klæða piltinn í rauða skó. Þarna var maðurinn minn mættur,
heilsaði mér, hreyfði höfuðið betur en James Dean hefði gert og
sagði eitthvað dónalegt en byrjaði þá að hósta og sló odd af oflæt-
inu og sagði viðkvæmislega: hæ litla prinsessa, ég sagði: hæ litli
prins. Þá hóstaði hann aftur en hnén mín skulfu. Ó, hvað hann var
sætur. Ég var brjáluð í hann. Þarftu ekki þetta, spurði ég og gaf
honum karmellu sem mýkir hálsinn. Þetta er akkúrat það sem ég
þarf, sagði hann, sneri sér undan á meðan hóstakastið hjaðnaði á
meðan ég gat horft á hann aftanfrá séð og varð síður en svo fyrir
vonbrigðum. Þetta er veikgeðja prins, hugsaði ég eftirvæntingar-
full en hann sneri sér aftur til mín og nú var andlit hans undur
breytt því ég leit framan í fésið á sjálfum kölska. Það leið næstum
því yfir mig en á undraverðan hátt safnaði ég mér saman. Nú eða
aldrei var tækifærið að sanna hvað í mér bjó. Fyrir helbera tilviljun
greip ég í kápuvasa mínum um gaffal og stakk honum í kviðinn á
manninum svo pollur af blóði gusaðist útum munninum á meðan
augu hans snerust einsog hringekja í skemmtigarði og hann féll
steindauður niður á gangstéttina. Nú skil ég, sagði ég upphátt
þegar mér var aftur litið á rauðu skóna og horfði svo til himins.
Rauðu skórnir voru þá allan tímann merkið frá Guði. Ég veifaði
gafflinum í átt til himnaríkis áður en ég gekk burtu frá líki djöf-
ulsins. Tækifærin eru alltaf betur falin en svo að þau birtist okkur
í rauðum skóm nema ef djöfullinn skyldi vera á ferðinni. Eða það
er reynslan mín. Tækifæri og loforð Guðs eru svo vel falin að það
tekur okkur alla ævina að leita þeirra og finna.
#13
Á föstudagskvöldum höfðum við þá venju kærasti minn og ég að
dansa í stofunni heima en ég bjó ein í íbúð sem gæti hafa verið rík-
mannleg á einhverju öðru tímabili en okkar. Yfirleitt var hann
mættur uppúr klukkan átta með hamborgarana sem hann keypti
á leiðinni og bjór sem hann sagði að væri ekki besti bjórinn í heim-