Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Side 62
E r n a E r l i n g s d ó t t i r
62 TMM 2006 · 2
rækilega. Þótt bækurnar fjalli um spæjara þýðir það ekki endilega að
þær séu glæpasögur.
Bjartur gaf út Da Vinci lykilinn eftir Dan Brown árið 2003 sem hefur
náð ótrúlegum vinsældum nema kannski helst meðal fólks sem les
almennt mikið af glæpasögum. Á árinu kom út myndskreytt útgáfa Da
Vinci lykilsins og einnig var haldið áfram útgáfu eldri bóka Dans Brown.
En Bjartur gaf einnig út bók af allt öðru tagi, Næturvaktina eftir Kirino
Natsuo sem er japanskur sálfræðitryllir og kærkomin viðbót við glæpa-
sagnaflóruna hérlendis.
JPV-útgáfa hefur einkum gefið út bandarískar spennusögur en í ár
kom einnig út norsk bók: Við enda hringsins eftir Tom Egeland. Nokkuð
sérkennilegt er til þess að hugsa að hún hefði varla komið út hérlendis
nema vegna þess að nokkrir efnisþættir eru svipaðir og í Da Vinci lykl-
inum.6 Það er umhugsunarefni að bandaríska bók skuli þurfa til að
prýðileg norsk bók sé gefin út hér, sérstaklega með hliðsjón af því að Við
enda hringsins er mun heilsteyptari glæpasaga en Da Vinci lykillinn
þótt Tom Egeland kalli bók sína réttilega „glæpasögu án glæps“ í eftir-
mála.
Töluverð gróska var í útgáfu glæpasagna hjá smærri forlögum á árinu,
t.d. gaf Grámann út franska bók, Kallarann eftir Fred Vargas, Hólar
gáfu út sænska bók, Svik eftir Karin Alvtegen, og önnur sænsk bók kom
út hjá Neshaga, Dauðadjassinn eftir Arne Dahl. ARI-útgáfa hefur einn-
ig gefið út sænskar glæpasögur þótt hlé hafi orðið á útgáfu þeirra árið
2005. Bókafélagið Ugla gaf út tvær bandarískar bækur, aðra eftir Patri-
ciu Cornwell, hina eftir Jack Higgins. Enn ein bandarísk spennusaga
kom út hjá Skjaldborgu sem gefur út bækur Mary Higgins Clark. Síð-
ustu árin hefur lítið farið fyrir þýðingum á breskum glæpasögum sem
kemur á óvart miðað við sterka glæpasagnahefð þar í landi. Nú er
bókaútgáfan Skrudda hins vegar byrjuð að gefa út þýðingar á frábærum
bókum Skotans Ians Rankins um Rebus og það er fagnaðarefni.
Lítið ber á klassískum glæpasögum í þýðingum, með þeirri undan-
tekningu að Skjaldborg hefur lengi gefið út eina bók á ári eftir Agöthu
Christie og það brást ekki.
Vorlaukarnir
Undir lok 20. aldar varð til nýtt orð í íslenskri tungu: glæpavor. Þótt
áður hefðu verið skrifaðar glæpasögur hérlendis hafði ekki orðið til
samfelld hefð fyrir utan ástar/spennusögur Birgittu H. Halldórsdóttur
sem komið hafa út nær árlega síðan snemma á níunda áratugnum.7 En