Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 63
B l ó m l e g u r g l æ pa g a r ð u r
TMM 2006 · 2 63
1997 og 1998 fóru vorlaukarnir að spretta og út komu glæpasögur eftir
fjóra íslenska höfunda sem héldu síðan áfram ritun slíkra sagna. Þetta
voru Arnaldur Indriðason, Stella Blómkvist, Árni Þórarinsson og Vikt-
or Arnar Ingólfsson. Arnaldur hefur síðan gefið út bók á ári en lengra
hefur liðið milli bóka hjá hinum. Enginn höfundurinn stökk fullskap-
aður fram á sjónarsviðið en flestir hafa tekið gríðarlegum framförum og
jafnvel skapað sér nafn á alþjóðavettvangi, einkum Arnaldur Indriðason
sem varð þess mikla og verðskuldaða heiðurs aðnjótandi á síðasta ári að
fá gullrýtinginn, einhver helstu glæpasagnaverðlaun heims, fyrir Mýr-
ina í enskri þýðingu. Af fyrstu bókum þessara höfunda var engin leið að
spá um framhaldið þannig að nú er gaman að horfa lítillega um öxl.
Viktor Arnar var ekki alger nýgræðingur þegar bók hans Engin spor
kom út 1998 því hann sendi frá sér tvær glæpasögur kringum 1980,
Dauðasök (1978), og Heitan snjó (1982) sem hverfðust um alþjóðlega
glæpastarfsemi. Bókin sem kom síðan út eftir sextán ára hlé, Engin spor,
var mjög vandlega unnin en sú mikla rækt sem lögð var við smáatriðin
var nokkuð á kostnað spennunnar. Sagan gaf þó góð fyrirheit og í fjórðu
bókinni, Flateyjargátu (2002), sýndi Viktor virkilega hvað í honum bjó
með skemmtilegum gátum og sterku andrúmslofti. Þetta tvennt ein-
kennir líka nýjustu bók Viktors, Aftureldingu, t.d. er náttúruskynjunin
í byrjun bókarinnar mögnuð. Persónusköpunin er að auki stórfín, bæði
aðal- og aukapersónur eru vel mótaðar og lifandi. Gefið hefur verið til
kynna að von sé á fleiri bókum um sama lögreglulið og óhætt er að
hlakka til.
Arnaldur Indriðason á það sameiginlegt með Viktori Arnari að hafa
hætt að vera efnilegur og beinlínis orðið góður höfundur með fjórðu
bók sinni. Af þessu má sjá hversu mikilvægt er að rithöfundar fái færi á
að þroskast. Þegar fyrsta bók Arnaldar, Synir duftsins (1997), er lesin nú
æpir sú staðreynd t.d. á mann oftar en komið verði tölu á strax á fyrstu
síðunum hversu mjög Arnaldi hefur farið fram í frásagnartækni. Í ann-
arri bókinni, Dauðarósum (1998), urðu lögreglumennirnir Erlendur og
Sigurður Óli þungavigtarpersónur og þeir héldu áfram að dýpka í fjórðu
bókinni, Mýrinni (2000), einkum Erlendur. Þá fékk Elínborg samstarfs-
kona þeirra líka aukið vægi. Í Mýrinni fléttast fortíðarsaga og sam-
tímasaga glæsilega saman og varpa ljósi hvor á aðra og ýmsar mein-
semdir þjóðfélagsins. Með þessari bók varð Arnaldur fullþroska glæpa-
sagnahöfundur. Hann hefur síðan haldið áfram að skrifa þjóðfélagslegar
glæpasögur með tveimur undantekningum; tilraunir með annars konar
form gerði hann í þriðju bók sinni, Napóleonsskjölunum (1993), sem var
fín hasarsaga, og í Bettý (2003), sem var athyglisverð tilraun með sjónar-