Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Qupperneq 68
E r n a E r l i n g s d ó t t i r
68 TMM 2006 · 2
Í sumum bókanna (Krosstré, Dætrum Hafsins, Þriðja tákninu) er
samtíminn eingöngu sögusviðið, bakgrunnurinn, en í meirihluta sagn-
anna gegnir íslenskt samtímasamfélag veigameira hlutverki, allt frá því
að kunnuglegar persónur og atburðir í samtímanum séu notaðir mark-
visst sem skraut (sbr. Valkyrjur Þráins Bertelssonar), til þess að taka
ákveðna þætti til skoðunar samhliða því sem rannsókn glæpsins vindur
fram (sbr. Aftureldingu, Blóðberg, Tíma nornarinnar, Morðið í Drekk-
ingarhyl) til þess að samfélagsskoðunin sé eiginlega aðalatriðið og glæp-
urinn gleymist næstum (sbr. Vetrarborgina).
Bein og óbein umfjöllun um íslenskt þjóðerni hefur verið nokkuð
áberandi í íslenskum glæpasögum síðustu árin,12 og í mörgum glæpa-
sögum ársins 2005 er þjóðernið tekið til skoðunar á nýjan hátt. Þessar
bækur birta margbreytilegri mynd af Íslendingum en þá hefðbundnu og
varpað er fram spurningum um hvernig „venjulegir“ Íslendingar séu.
Um innflytjendur og aðra útlendinga er fjallað í merkilega mörgum
bókanna og gaman er að sjá hvað þeir gegna ólíkum hlutverkum. Stund-
um eru þeir aukapersónur eins og japanski leigumorðinginn í sögu Jóns
Halls og asísku skúringakonurnar sem bregður fyrir í bók Yrsu, en að
auki er sá myrti í þeirri bók þýskur og annar Þjóðverji rannsakar glæp-
inn ásamt aðalpersónunni. Ævar Örn hefur útlenska verkamenn á Kára-
hnjúkum í bakgrunni frásagnarinnar og tekur kjör þeirra og aðstæður
til umfjöllunar. Fólk af erlendum uppruna er fórnarlömb glæpsins og
aðstandendur hjá Stellu og Arnaldi sem vinnur markvisst að því í Vetr-
arborginni að varpa ljósi á stöðu innflytjenda hérlendis. Snyrtilega
athugasemd um að Íslendingar þurfi ekki að vera einsleitur hópur er að
finna snemma í bókinni; Sigurður Óli dregur þá ályktun strax af útliti
látna drengsins sem finnst í bókarbyrjun að hann sé útlendingur en
Erlendur hrapar ekki eins að ályktunum:
– Hann getur verið taílenskur, filippseyskur, víetnamskur, kóreskur, japanskur,
kínverskur, taldi Sigurður Óli upp.
– Eigum við ekki að segja að hann sé íslenskur þangað til annað kemur í ljós?
sagði Erlendur. (10)
Báðar aðalpersónurnar í bók Viktors Arnars, Aftureldingu, eru að ein-
hverju leyti af erlendum meiði. Lögreglumaðurinn Birkir Li Hinriksson
er upprunninn í Víetnam og Gunnar kollegi hans á þýska móður. Útlit
Birkis ber upprunann með sér sem vonlegt er og vegna þess þarf hann
að svara ýmsum bjánalegum spurningum, t.d. hvort hann tali íslensku.
Hann svarar játandi en bætir meinfyndinni athugasemd við: