Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 77
G ó ð k u n n i n g j a r o g s e r í u b ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 2 77
góðri ævintýrasögu en Eragon og Murtagh bjarga álfameynni Örju á ferð
sinni. Sagan er spennandi og tvímælalaust vel heppnuð ævintýrabók, öll
réttu hráefnin eru sett saman af mikilli frásagnargleði sem skilar sér til
lesanda. Í lokin er framhald boðað í næstu bók sem á að heita Öldung-
urinn. Og það er kvikmynd á leiðinni undir stjórn Stefens Fangmeiers
sem hefur getið sér gott orð fyrir tæknibrellur í Hollywood.
Börn lampans – Iknaton-ráðgátan eftir P.B. Kerr í íslenskri þýðingu
Péturs Más Ólafssonar er með hressilegri sögum ársins. Hún segir frá
tvíburum sem uppgötva að þau eru afkomendur anda og geta uppfyllt
óskir, rétt eins og andarnir í Þúsund og einni nótt. Þetta er ein skopleg-
asta sagan enda eiga tvíburarnir erfitt með að ná tökum á hæfileikum
sínum og uppfylla því reglulega óskir fólks alveg óvart. Það getur reynst
bjarnargreiði að uppfylla óskir fólks eins og sést á hinum einhenta
Groanin sem fékk þrjár óskir og spanderaði þeim tveimur fyrstu í eitt-
hvað tilgangslaust og tímir nú ekki seinustu óskinni í nýjan handlegg af
ótta við að eitthvað annað komi upp (122). Óskir fólks eru því ekki
einfalt mál þó að nálgunin í þessari sögu sé á léttu nótunum. Og viti
menn, þegar er búið að ákveða að bækurnar um tvíburana verði þrjár og
Steven Spielberg sjálfur undirbýr kvikmyndir eftir sögunum.
Silfurvængur eftir Kenneth Oppel í þýðingu Rúnars Helga Vignisson-
ar er líklega ein athyglisverðasta bókin sem kom út í fyrra. Hún segir
sögu leðurblökustráksins Skugga sem kemst í ónáð hjá hópnum þegar
hann leyfir sér að vera úti við sólarupprás því hann langar svo að sjá
sólina. Því taka uglurnar illa og brenna tréð Trjáhöfn sem er aðalbú-
staður leðurblakanna. Leðurblökurnar fljúga til vetrarsetu suður á bóg-
inn en Skuggi verður viðskila við hópinn og kynnist blöku af annarri
tegund, Marínu, sem tilheyrir svokölluðum Skærvængjum.
Sagan þiggur innblástur sinn að hluta til frá einni af dæmisögum
Esóps, þeirri sem sagði frá stríðinu milli fugla og skepna. Í því stríði
studdu leðurblökurnar hvorugan aðilann enda mitt á milli fugla og skepna
þar sem þær eru fljúgandi spendýr. En þegar vopnahlé var gert voru bæði
fuglar og skepnur æf út í blökurnar og þaðan sprettur hlutskipti leðurblak-
anna, að fá aldrei að sjá dagsljósið og þurfa að ferðast um í myrkri. Í Silf-
urvæng er varpað nýju ljósi á þessa afstöðu leðurblakanna þegar Skuggi
fær að vita að þetta er ástæðan fyrir því að þau fá aldrei að sjá sólarljósið:
„Við gerðum ekkert!“ hrópaði hann upp. Hann hafði búist við einhverju svaka-
legu, glæp sem fengi hann til að hrylla sig og skammast sín fyrir forfeður sína.
„Þau gerðu okkur útlæg bara vegna þess að við tókum ekki afstöðu í stríðinu!“
„Fuglunum og skepnunum fannst við vera gungur og svikarar.“ (35)