Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 84
F r i ð r i k Þ ó r ð a r s o n
84 TMM 2006 · 2
víkurflugvelli. Heyrði hann iðulega á tal liðsforingja bandarískra og féll ekki allt
vel í geð sem hann heyrði og sá. En hann gætti þess að leggja aldrei neitt til mál-
anna og þagði þunnu hljóði sem angaði af óbeit jafnframt því sem hegðun hans var
í alla staði óaðfinnanleg.
En hin fjandsamlega háttprýði Friðriks fór í taugarnar á verndurunum. „I want
that fucking guy removed,“ heyrði hann einhverju sinni útundan sér. Munu
Bandaríkjamenn hafa sent bréf til ráðuneytis þess efnis að „mannfjandinn yrði
fjarlægður“. Ráðuneyti brást hins vegar í þetta sinn við með reisn, hafnaði tilmæl-
um verndaranna og benti á að viðkomandi væri „a very competent worker“. Og þar
við sat. Friðrik fékk afrit af bréfi ráðuneytis og hefur það varðveist.
Í erfðaskrá (sem féll úr gildi við giftingu hans) segir m.a. svo (með leyfi ekkju
hans): „Jeg testamenterer mit bibliotek til Islands universitet i Reykjavik på den
betingelse at det klæbes til hvert enkelt bind en seddel med ordene „PEREAT
AMERIKA“; dersom Islands universitet ikke ønsker at modtage denne gave på de
føromtalte betingelser, skal biblioteket i sin helhet tilfalde spillebanken i Monte
Carlo, Monaco, som disponerer derover efter eget ønske.“
Við urðum nágrannar eftir að Friðrik fluttist til Austuráss (Østerås) í Bærum.
Bærum er samvaxin Óslóarborg, eins konar norskur Kópavogur, en er reyndar
vinabær Hafnarfjarðar. Síðan var það háttur okkar að hittast á laugardögum yfir
kaffibolla í þjónustuverinu Østerås kjøpesenter. Kaffistofan þar varð síðasti háskóli
minn.
Ég var nefnilega oftast hinn þakklátur hlustandi. Þarna varð Reykjavík uppvaxt-
arára Friðriks ljóslifandi, bæði mannlíf og þjóðlíf. Auk þess voru frásagnir hans af
vettvangsrannsóknum sínum í Kákasus hinn skemmtilegasti fróðleikur.
Einhverju sinni var Friðrik á leið utan ásamt landa sínum sem einnig stundaði
klassísk fræði. Samskipa þeim var kaupfélagsstjóri nokkur utan af landi. Þegar sá
varð þess áskynja að þessir ungu menn eyddu tíma sínum m.a. í grískunám,
umhverfðist hann af vandlætingu yfir þvílíkum ónytjungshætti. Mátti skilja á
honum að grískunám jaðraði við kommúnisma að viðurstyggð. Í því sambandi má
einnig geta þess að einhverju sinni varð Friðriki það á í samtali við náfrænda sinn
Guðmund Í. Guðmundsson að betur þyrfti að búa að rannsóknum og viðlíka
fræðastörfum í Háskóla Íslands. Frændi taldi það hina mestu ósvinnu; háskólinn
ætti eingöngu að ala upp dugmikla embættismenn og þar með basta.
Á námsárum Friðriks í Ósló litu samlandar hans í stúdentahópi mjög upp til
hans sakir visku hans og kunnáttu. Eitt sinn ræddu þeir um það sín á milli hvað
Friðrik mundi kunna mörg tungumál. Yngismey nokkur var skikkuð til að þýfga
Friðrik sjálfan um þetta, og hef ég söguna frá henni. Til að skilja svar hans þarf að
hafa í huga að Friðrik var allra manna hógværastur. Hann leit upp hægt og seint og
svaraði eftir drykklanga stund: „Á ég að telja með þessar evrópsku mállýskur?“
Um tíma vann hann í háskólabókasafninu í Ósló og bar þá að í skoðunarferð
feðgana Hákon konung VII og Ólaf prins, síðar Ólaf konung V. Friðrik var fenginn
þeim til leiðsagnar um safnið. Þegar konungur varð þess vís að hann var maður
íslenskur, varð honum að orði: „De har lært Dem godt norsk.“
„Det samme kan sies om Deres Majestet,“ svaraði leiðsögumaður af bragði.
„Þá hló Ólafur,“ sagði Friðrik.