Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Qupperneq 89
A f O s s e t u m o g G e o r g í u m ö n n u m
TMM 2006 · 2 89
þorpum. Ekki veit ég hvort rétt sé að segja að Georgíumenn kúgi þjóð-
erni Osseta; í Tskinvalí er deild úr georgisku vísindaakademíunni, stór
stofnun sem sinnir þjóðlegum fræðum; þar er nú t.a.m. verið að semja
mikla orðabók yfir málið; ekki gætu Ossetar einir staðið undir henni.
Lítið eitt var útvarpað á ossetisku í Tskinvalí kvölds og morguns, en gat
þó varla minna verið fyrst verið var að þessu á annað borð. Í Ordjoní-
kídze er bæði útvarp og sjónvarp, en það var allt mjög rússneskuskotið,
að minsta kosti þá dagana sem ég var þar, en þá ef til vill eitthvað minna
próvinsíelt fyrir bragðið. Þokkalegt leikhús er og í Tskinvalí og minnir
mig þar væri leikið sitt á hvað á ossetisku og georgisku, en aldrei á rússn-
esku á meðan ég bjó í bænum; hér þætti mikið ef ríkið hefði fullkomið
leikhús með föstum leikurum og sjónleikahaldi á hverju kvöldi árið um
kring í 20–30 þúsund manna smábæ. Aftur á móti þykir mér kynlegt að
Suður-Ossetía skuli ekki vera annað en sjálfstjórnarhérað í Georgíu,
oblast sem Rússar kalla, en Abkasía sérstakt lýðveldi í ríkjasambandi við
Georgíu (ASSR á rússnesku); báðar eru þjóðirnar jafnógeorgiskar. Við
háskólann í Tvílýsi voru menn furðu tómlátir um ossetisk fræði, og er
þar þó mart manna sem hafa lagt fyrir sig írönsk mál; ég held jafnvel
ossetiska sé eina málið í Kákasusfjöllum sem hefur ekki eignazt sinn
sérfræðing í Tvílýsi, nema rétt einn mann í hjáverkum.
En vitaskuld eru þessi þjóðernismál ógurlega flókin og vandræðaleg
í svona landi og reyndar í öllum Sofétríkjunum, og ókunnugum alveg
óskiljanleg, t.a.m. Rússum. Brésnéf hafði sagt í ræðu í Karkóf eða Kænu-
garði að um síðir hlytu allar þjóðir í Sofétríkjunum að renna saman í
eina mikla þjóð, og ekki var hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að sú
mikla þjóð yrði rússnesk; þetta féll ekki öllum jafnvel sem á heyrðu eða
til fréttu; og varð B. að éta alt ofan í sig aftur. Auðvitað smýgur rússn-
eskan alstaðar inn, þó ég sé ekki viss um hún megi sín meira, t.a.m. í
Georgíu, en enska á Íslandi eða hér; andófið er a.m.k. meira en hjá
okkur. Ég er líklega eitthvað hálföfugur við tímann, en þessi firnaríki
kann ég aldrei við, það er eins og þar týnist alt þetta einstaka og sérlega
í mönnunum; en ég á víst ekki eftir að sjá rætast mína útopisku draum-
óra um lítil og sjálfstæð sveitafélög hvert hjá öðru. Nú væri að vísu rangt
að halda því fram, þó það sé oft gert, að rússneskir bolsivíkar reyni að
gera Rússa úr öllum Sofétþjóðum, öðru nær; en ríkisfyrirkomulagið,
með svona volduga alsherjarstjórn sem flestu ræður sem máli skiptir, og
svo gífurlegt fjölmenni Rússa og hinna slafnesku þjóðanna í hlutfalli við
afganginn af landinu hlýtur að leiða af sér mikinn ágang á menningu
smáþjóðanna, og skiptir þá litlu hvort honum er valdið af ásettu ráði eða
hann verður sjálfkrafa. En vitaskuld vinnur hér á móti skólakenslan og