Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 92
F r i ð r i k Þ ó r ð a r s o n
92 TMM 2006 · 2
um leiki þar eystra og ekkert merkilegt við það; og kemur þá Ordjoní-
kídze inn á sviðið og flytur einhvern boðskap, bætir síðan við eins og
Jóhannes skírari: á eftir mér mun sá koma sem meiri er o.s.frv.: Jósep
Stalín. Og um leið og hann slepti orðinu reis allur söfnuðurinn úr sætum
og klappaði saman höndum til þess að hylla hinn fræga sveitunga sinn.
(Tskinvalí er rétt fyrir ofan Gorí; faðir Stalíns var af ossetiskum ættum,
Djúgunga-ætt; en þeir frændur þykja reyndar vera heldur lítilsháttar og
hafa ekki gott orð á sér; ég kyntist nokkrum þeirra; aftur var móðir Stal-
íns georgisk.) Og líkt var þetta oft í Tvílýsi. Hver hefði trúað því þegar
ég var að vaxa úr grasi að Jósep Visaríonovitj ætti eftir að verða tákn
georgiskrar þjóðrembu, soféthaturs og antikommúnisma?
Gaman væri nú að vita hvað þeim hefur farið á milli Gotum og Ölun-
um þar á bökkum Tanakvíslar; vonandi hafa þeir hafzt eitthvað annað
að en hnýta hver annars kellingar aftan í ótemjur. Er það ekki merkilegt
með þessa sagnfræðinga, aldrei segja þeir manni neitt sem mann langar
til að vita. Eitthvað hefur verið gaulað í ranni Jörmunrekks; einhvern
tímann hefur alanskur piltur trúlofazt gotneskri stúlku á bökkum þess-
arar lygnu ár sem enginn sér hvort rennur heldur aftur á bak eða áfram;
hvað sagði hann við hana? Hvernig var útvegurinn á Krím og við Mæj-
ótisflæjur, reru alanskir menn og gotneskir á sama báti? Hvernig fóru
þeir þá að því að tala saman um netalagnirnar eða um veðrið eða um
fiskinn? Þeir Ossetar kunna ekki að tala um fisk sem nú lifa, enda leggj-
ast ekki nema skítseyði í vötn þar í fjöllunum, eitthvað annað en það
lostæti sem fæst úr Svartahafi. Og þannig mætti lengi telja. En Gotar eru
löngu dauðir og hafa ekkert skilið eftir sig nema þetta lítilræði, krím-
gotnesku; af henni virðist að vísu vera einsætt að þeir sem hana töluðu
hafi haft alanskt tökuorð um hundrað; töluorð eru víst skjaldan fengin
til láns úr öðrum málum, og þegar það verður, þá bendir það til mjög
nákomins sambands við þá þjóð sem orðið er fengið frá. Og fer ekki hjá
því að til hafi verið við norðanvert Svartahaf sveitir eða þorp þar sem bjó
tvítyngt fólk, mælt bæði á germanska og alanska mállýzku; þetta má nú
að vísu ráða af sögunni einnig. Kynkvíslir sem svo eru nákomnar hvor
annarri að þær tala hvor annarrar mál hljóta að búa við svipaða þjóð-
félagshætti og menningu; trúarbrögðin hljóta líka að hafa svip af þessu
sambýli. Sögur og kvæði læra þeir ugglaust hvor af öðrum. Það er vita-
skuld líklegt að einhver sagnaminni hafi skolazt vestur á bóginn með
gotneskum farandskáldum, komin í fyrstu frá Ölunum; ég hef rétt látið
mér detta í hug að smáminni tengt Sigurði Fáfnisbana í Niflungakvæð-
um þýzkum sé alanskt að uppruna, og setti saman um það pistil í fyrra
og skal ég senda þér hann ef ég kem honum á prent einhvers staðar.