Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 97
S a g a s e m e r e n g i n s a g a
TMM 2006 · 2 97
því skrítna, sem þeir heyrðu og sáu í gamla daga, t.d. fáeinar af vísunum sem
Bobba gamla svæfði þá með […] Þá væri það eigandi að þeir hefðu bjargað ein-
hverju af skrítnu dansvísunum hennar Siggu gömlu afasystur, sem enginn kann
víst lengur (EL: 9-10).
Í textanum er greinileg eftirsjá, bæði eftir hlutum og persónum, en ekki
hvað síst eftir sögum og ljóðum sem eru öllum gleymd. Það eru raddir
fólksins sem hún saknar mest, raddir sem hefðu ekki gleymst ef sköp-
unarverk þeirra hefðu verið varðveitt. Samt tekur hún upp þráðinn og
hefur frásögn í svipuðum stíl og þær frásagnir sem hún minnist úr
æsku.
Halldóra segir í upphafi bókarinnar að hún hafi aldrei hugsað um ævi
sína sem efni í sögu, ekki fyrr en hún fékk áheyranda:
Varst þú til á átjándu öld, mamma?
Hver myndi ekki fyrtast við slíka spurningu, nema af því það er fimm ára barn
sem spyr, einlægum huga og vaknandi hugboði um tengsl sín við horfnar kyn-
slóðir. (EL: 7)
Áheyrandinn verður nokkurs konar afsökun fyrir hana til að segja frá
æsku sinni, hún verður að hafa einhvern viðtakanda til að koma sög-
unni upp úr skúffunni, sögunni sem henni „hafði ekki dottið í hug áður
að væri nein saga“ (EL: 11).
Ragnhildur Richter hefur bent á að konur noti einmitt slíkar afsak-
anir til þess að öðlast samúð lesenda sinna og til þess að geta sagt sögu
sína án þess að karlgera sig en þó þannig að lesendur skilji söguna og
vilji lesa hana (Ragnhildur Richter 2002: 13). „Konum virðist finnast
mjög mikilvægt að lesendur telji þær hvorki uppteknar af sjálfum sér né
montnar,“ segir Ragnhildur, þær séu stoltar af lífsreynslu sinni, án þess
að mega láta það uppi (13-14).
Þegar Halldóra hefur frásögnina verður henni hugsað til formæðr-
anna sem skildu ekkert eftir sig og því er fátt af þeim að segja:
Það væri vissulega gaman að geta sagt barninu eitthvað frá leikjum langalang-
ömmu sinnar, sem var til á átjándu öld. En af gildum ástæðum gat maður ekki
tekið þátt í leikjum hennar að legg og skel og verður að láta það nægja að segja
því nafn hennar og bústað og rekja ætt hennar til Óðins, eða lítið eitt lengra. Þó
maður vildi gjarnan segja því eilítið meira, þá er það ekki hægt, því líklegast er
að hún hafi ekki skilið eftir eitt einasta sendibréf, hvað þá annað. Eða hafi hún
geymt manni eitthvað, þá hefir það víst glatast á öllum þessum árum, sem liðin
eru síðan hún var. (EL: 7-8)