Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Blaðsíða 102
S t e l l a S o f f í a J ó h a n n e s d ó t t i r
102 TMM 2006 · 2
Minningar og tungumál – Tungumál og vald
Fyrsta minning Halldóru er tengd þeim sem hún umgekkst mest, en
næsta minning er tengd tungumálinu og er Halldóra afar upptekin af
því eins og kemur fram í kaflanum „Blótað á laun“. Þar eru Halldóra og
Pési saman að fikra sig nær því að verða fullorðin og felst fyrsti liðurinn
í því að segja eitthvað ljótt. Þau koma sér saman um að blóta bæði tvö:
Andskotinn! sagði Pési hátt og greinilega, og um leið velti hann sínum steini
mjúkum og djörfum tökum upp á brekkubrúnina.
Hevlíti! tautaði ég og bjóst við sama árangri. En þá fór nú í verra. Líklega hef
ég treyst of mikið á mátt töfraorðsins […] Ég missti fótanna í hallanum, lenti með
munninn á steininum og fann voðalega mikið til. Steinninn sentist niður brekk-
una og eitthvað austur á tún. (EL: 21-22)
Halldóra mismælir sig og ætlunarverkið mistekst. Í staðinn fyrir að
segja helvíti segir hún hevlíti og hefnist fyrir. Fallið verður nokkurs
konar syndafall. Hún blótar heldur ekki nógu hátt, hún tautar en Pési
talar hátt og greinilega. Sjálfsmyndin brotnar í þúsund mola við fallið og
tannmissinn sem fylgdi, og Halldóra líkir sér við Evu þegar hún var
rekin úr Paradís.
Pésa tekst ætlunarverkið því hann veit að hann tilheyrir karlveldinu.
Aðgangur hans að hinu viðurkennda tungumáli er greiðari en aðgangur
Halldóru, hann fer rétt með blótið sem kemur bjagað úr munni Hall-
dóru. Hún fellur, hann hverfur sigri hrósandi á braut.
Franski fræðimaðurinn Jacques Lacan kallaði það spegilstigið þegar
barn fer að sjá sig sem einstakling, það er að segja þegar barnið lítur í
spegil og áttar sig á því að það er að horfa á sjálft sig (Sveinn Yngvi
Egilsson 1999: 152). Á sömu stundu verður barnið hluti af samfélaginu
og gengst undir lög þess. Þegar Halldóra og Pési velta fyrir sér afleið-
ingum þess að blóta, áður en þau láta til skarar skríða, segir Pési að það
sé ekki satt sem þau hafi heyrt að maður fá svarta bletti á tunguna segi
maður eitthvað ljótt. Halldóra spyr hvernig hann viti það og hann svar-
ar: „[…] ég blótaði voða stórt blót úti í hesthúsinu um daginn. Það var
svo vont að moka það. Ég hef marglitið í spegilinn síðan, og tungan er
alveg eins og hún var“ (EL: 21).
Pési er greinilega búinn með spegilstigið, hann er einstaklingur. Hall-
dóra treystir hins vegar spegilmynd Pésa og lítur í raun á þau sem sama
einstaklinginn. Í hennar augum gildir spegilmynd Pésa fyrir þau bæði.
Hún biður hann ekki einu sinni um að reka út úr sér tunguna til að