Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 103
S a g a s e m e r e n g i n s a g a
TMM 2006 · 2 103
sannreyna staðhæfingar hans, hún trúir speglinum og frásögn eldri
bróður síns.
Í kaflanum „Pési“ segir Halldóra frá því hvernig Pési streitist á móti
reglum og skapar sína eigin merkingu úr texta. Það byrjaði þegar hann
átti að læra stafrófsvísuna, í stað réttrar vísu söng hann hana svona:
„Api, c, d, e, f, g, / ettir kemur h, í, k, / ellimenn og einnig p. / Atla é
kúðar standi hjá.“ (EL: 81) Enginn tók eftir því að hann lærði vísuna
vitlaust og hann sagði heldur engum frá því nema Halldóru enda
skammaðist hann sín mikið þegar hann uppgötvaði vitleysuna. Þá hefur
hann gengist inn á tungumálið og vill síst kannast við villta tjáningu
eins og stafrófsvísuna. Þegar hann lærði réttu vísuna fór glansinn af
þeirri gömlu: „Ævintýri vísunnar var horfið. Apinn og ellimennirnir og
öll hin strollan og litlu kúðarnir, sem stóðu bara og horfðu á, þetta varð
alltsaman ómark og vitleysa og um leið varð vísan sjálf ekkert annað en
dauðir bókstafir.“ (EL: 82)
Rétt varð vísan lykillinn að ævintýrum allra bóka, og þar með er tekið
fyrir sköpun sem ekki er bundin neinum reglum. Vísan opnar líka
dyrnar að hinu fastmótaða samfélagi. Eins og til að árétta það kemur
næst í kaflanum frásögnin af því hvers vegna Pési var valinn höfðingi
Þykjastmanna. Með því að læra stafrófsvísuna rétt gengst Pési reglum
föðurins á vald og verður fullorðnari, og þar með fullkomnari, en yngri
systkini sín.
Þegar Halldóra fullorðnast gengst hún tungumálinu ekki á vald eins
og Pési gerði. Hún verður fullorðin í lok bókarinnar þegar henni er
treyst fyrir hlutunum og þegar hún þarf ekki lengur að fylgja fastri for-
skrift annarra, en þá hefur hún náð valdi á sjálfri sér og eigin tungumáli.
Hún fer sjálf að kanna alvörulönd, ein og óstudd:
Þau ákváðu nú að flýta fyrir sér með því að skipta milli sín leitarsvæðinu, ef
þau yrðu einskis vísari frá Selhólnum. Þar mundi skilja leiðir. Þau gengu austur
hálsbrúnina, með von og óvissu leitarinnar í brjósti sér, og skimuðu fundvísum
augum um slakka og fjarlæg heiðadrög. Það sló gullnum bjarma á áhyggjufull
andlitin. Sólin var farin að brydda brúnir. (EL: 139)
Frásögnin er ljóðræn og Halldóra óttast hvorki tungumálið né vald sitt
yfir því. Hún lýsir ferð þeirra systkina úr fjarska líkt og hún sé þegar
komin inn í heim fullorðinna.