Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 108
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
108 TMM 2006 · 2
Ein áhrifamesta þýdda skáldsagan sem hér kom út í fyrra var Slepptu mér
aldrei eftir Kazuo Ishiguro, sem Bjartur gaf út í þýðingu Elísu Bjargar Þor-
steinsdóttur. Þar segir ung kona frá uppvexti sínum, og lengi vel er sagan í stíl
við gamalkunnar breskar heimavistarsögur, því sögumaður er alinn upp á
slíkri stofnun. Smám saman læðist þó að lesanda grunur um að ekki sé allt með
felldu, en óhugnaðurinn er svo beislaður að maður tekur ekki mark á honum
en heldur áfram að lesa … Uns hann sleppir manni aldrei.
Ishiguro segir frá því í grein í Guardian (25. mars) að allan tíunda áratuginn
hafi hann verið að skrifa hjá sér búta úr sögu nokkurra óvenjulegra „nemenda“
við skóla í enskri sveit. „Ég vissi aldrei almennilega hvaða fólk þetta var,“ segir
hann. „Ég fann að þessara ungmenna biðu einkennileg örlög en ég vissi ekki
heldur almennilega hver þau voru. (Einna helst hugsaði ég um atómvopn.)“
Þessum miðum safnaði Ishiguro í bauk uppi á hillu meðan bækur um annað
fólk en „nemendurna“ urðu til og komu út. Svo gerðist það að morgunlagi fyrir
fimm árum að hann heyrði útvarpsþátt um framfarir í líftækni, og þá smullu
síðustu stykkin í púsluspilinu á réttan stað. „Skyndilega sá ég söguna sem ég
hafði verið að leita að: einfalda sögu sem tekur samt á sjálfri grundvallarspurn-
ingunni um dapurleika mannlegs hlutskiptis.“
Kathy H. og vinir hennar í sögunni eru klónar, og meira að segja þægir
klónar sem ekki dettur í hug að gera uppreisn gegn örlögum sínum – enda
þekkja þeir ekkert annað líf. En Ishiguro segir að hann hafi komist að þeirri
merkilegu niðurstöðu að þetta „gervifólk“ hafi gert honum auðveldara um
vik að fjalla um nokkrar elstu tilvistarspurningar mannkynsins sem þyki
yfirleitt fremur vandræðalegar í samtímabókmenntum: „Hvað þýðir það að
vera manneskja? Hvað er sálin? Til hvers vorum við sköpuð og eigum við að
reyna að rækja skyldur okkar, hverjar svo sem þær eru?“ Í gamla daga gátu
persónur Dostójevskíjs og Tolstojs rökrætt slíkar spurningar á tugum blað-
síðna og engum þótti mikið, en það er liðin tíð. Þetta reynist vera framtíðar-
leiðin til baka, segir Ishiguro. Víst er að engum tekst eins og honum að lýsa í
huga fólks sem er bundið á klafa og getur aldrei leyft því að springa út sem í
því býr.
Slepptu mér aldrei var ein af mörgum umtöluðum erlendum skáldverkum á
bókamarkaði síðasta árs. Önnur var Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini
(þýð. Anna María Hilmarsdóttir, JPV útgáfa) sem gerist að mestu leyti í Afgan-
istan. Höfundur er Afgani að uppruna en fluttist þaðan ellefu ára og hefur búið
í Bandaríkjunum frá unglingsaldri. Sagan gefur vægast sagt óhugnanlega
mynd af þessu hrjáða landi og þjóðinni sem það byggir. Jafnvel fyrir rússneska
innrás átti ekki nema hluti þegnanna rétt á mannsæmandi lífi vegna rótgróinn-
ar stéttaskiptingar, og eftir sigur Talíbana minnkaði sá hluti enn. Eins og alls
staðar þar sem ójöfnuður er mikill er manngæskan í lágmarki, og sagan ýtir
ekki undir ekki samúð manns með hinni afgönsku þjóð þótt áhrifamikil sé.
Barnaleikir eftir breska höfundinn Tony Parsons (Vaka-Helgafell, þýð.
Helga Soffía Einarsdóttir) segir frá þremur systrum sem voru yfirgefnar af
móður sinni ungar og eiga fullorðnar í óttalegu basli með tilfinningamálin.