Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 123
L e i k l i s t
TMM 2006 · 2 123
mér að sé alltof sjaldan notuð í bransanum. Það skein í gegn hjá leikurum að
þeir höfðu taugar til persónanna sem þeir túlkuðu og boðskapar sýningarinn-
ar. Leikarahópurinn er hæfileikaríkur, það fer ekki á milli mála, enda sýningin
þess eðlis að draga slíkt fram. Ef þetta hefði verið einhver strengjabrúðuupp-
setning mætti ætla að sköpunargleðin og krafturinn sem þarna sást hefðu
misfarist.
Sviðsmynd sýningarinnar er listavel útfærð. Haug af skrifborðsstólum er
hlaðið óreglulega í hring í miðjunni en sýningin gerist yfir og allt um kring,
það eru snögg skipti á milli sena og áhorfendur snúa sér þangað sem hlutirnir
eru að gerast. Tjöld eru dregin fyrir og frá, ljós eru notuð til að varpa upp
skuggamyndum, teiknimyndir eru sýndar á hvítu tjaldi og ljósmyndir eru
gerðar að bakgrunni. Með þessum hætti vísar sýningin í formið sem hún er
sprottin úr, myndasöguna. Einnig er notast við tónlist í verkinu, þar sem leik-
endur bresta í söng eins í amerískum söngleik. Allt þjónar þetta tilgangi. Það
er óregla og kaos, sýningin er stöðugt brotin upp og áhorfendum aldrei leyft að
koma sér í þægilega stellingu þess sem þarf bara að meðtaka eitt ákveðið form
af leik, allt þó án þess að vera yfirdrifið. Við erum líka þjóðfélag sem stöndum
af okkur stanslaust upplýsinga-, auglýsinga- og fréttaáreiti. Ef meðvitundin á
að vera til staðar þurfum við tilbreytingu. Þetta er leikverk sem hentar nútíma-
fólki með athyglisbrest, ofvirkni og ómeðvitund fullkomlega og engum ætti
því að finnast þessi sýning vera sér ofviða.
Það er sterkur siðferðislegur boðskapur í sögum Hugleiks, þó að út á við séu
þær hryllilegar á að horfa. Hann beitir tæknilega fyrir sig beittum húmornum,
línan á milli þess siðlega og ósiðlega er glæfralega dregin og hann gengur
vissulega mjög langt til að koma merkingunni á framfæri, en hann þarf þess
líka til að koma skilaboðum til þjóðfélags sem þjáist af stórkostlegum doða
fyrir umhverfi sínu. Ég sá ekki annað en að salurinn skemmti sér stórkostlega.
Þarna var fólk á öllum aldri, og þó að myndasögum Hugleiks hafi verið hamp-
að sérstaklega af yngri kynslóðinni, virtist harðneskjuleg hæðnin skila sér til
allra. Þrátt fyrir hryllinginn sem þarna var borinn á borð fyrir okkur gekk
enginn út og enginn var sárlega móðgaður á svip að lokinni sýningu. Því þó
allir hafi hlegið eins og kjánar fór megininntak sýningarinnar ekki framhjá
neinum.
Ég fagna því stórlega að sterkar samfélagsádeilur séu settar á svið fyrir okkur
Íslendinga. Helst myndi ég vilja að Hugleikur og hans líkar leggi undir sig öll
möguleg listform, því þau mein sem samfélagið geymir innra með sér verður
að draga upp á yfirborðið og greina. Írónían er góð leið til að ná til fólks, sé rétt
farið með hana. Meira svona fyrir okkur.