Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 133
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 2 133
Stefáni Mána því hann gaf út árið 1972 langa smásögu eða nóvellu sem heitir
Hreiðrið. Þar gátu glöggir lesendur þekkt marga bókmenntamenn og rithöf-
unda í nokkuð miskunnarlausri umskrift Ólafs. Mér finnst tíminn leiða í ljós
að náinn skyldleiki skáldsagna við samtíma sinn sé ekki hentugur farangur og
verði góðri bók aðeins til trafala þegar fram í sækir. Um þetta geta lesendur
sannfærst með því að lesa Hreiðrið í dag og athuga hvað þeir átta sig mikið á
því sem þar er skrifað. Að því sögðu er ljóst að Stefán Máni er hvorki að gera
sjálfum sér né lesendum sínum mikinn greiða með því að vefja „hina raun-
verulegu sögu“ inn í svo þykkar umbúðir af raunveruleika samtímans.
Mér er það ekkert launungarmál að ég skemmti mér konunglega við lestur
bókarinnar og talsvert betur en ég átti von á eftir umsagnir sem ég hafði lesið.
Og mér fannst Stefán Máni ekki ganga of langt í gríni sínu utan á einum stað
þar sem sagt er frá samskiptum rithöfundar nokkurs við konu sem aðstoðar
hann við yfirlestur og ritun mikilvægrar bókar. Ef menn þekkja til er nokkuð
auðvelt að átta sig á fyrirmyndunum sem eiga ekki gott með að bera hönd fyrir
höfuð sér, og þar finnst mér Stefán Máni fara yfir strikið. En ég hló.
Fjölmiðlar og umfjöllun þeirra um bókmenntir og höfunda er talsvert
áhugamál rithöfunda á ákveðnum árstímum. Fjölmiðlaorgía jólanna fær sinn
skammt í Túristanum og er umsjónarmönnum þátta um bókmenntir og
blaðamönnum sem taka viðtöl við rithöfunda ekki hlíft frekar en höfundum
og ritdómurum. Hafandi tekið þátt í þeim sirkus af hálfu fjölmiðla og tekið
viðtöl við fjölmarga rithöfunda, Stefán Mána þar með talinn, verð ég að ljúka
lofsorði á skarpskyggni hans á reglur leiksins.
Eins og áður er sagt kvartaði Stefán opinberlega undan áhugaleysi og jafnvel
afskiptaleysi forleggjara síns af bókinni. Þótt sagan skemmti mér vel á köflum
og ég sæi vel metnað Stefáns Mána til þess að skrifa „stóra“ skáldsögu þá fannst
mér hún dálítið bláþráðótt á köflum; sumir partar hefðu mátt missa sig alveg
og í staðinn hefði mátt þétta í eyðurnar hér og þar. Þetta fannst mér staðfesta
að forlagið hefði ekki lagt þá vinnu í ritstjórn bókarinnar sem hún átti skilið.
Annað sem benti til hroðvirknislegra vinnubragða af hálfu forlagsins var að
bókin er morandi í stafsetningarvillum sem stafa væntanlega af lélegum próf-
arkalestri kæri Watson.
Þegar ég lagði bókina glottandi frá mér þá fannst mér eins og ég hefði orðið
vitni að miklu reiðikasti unglings á erfiðu gelgjuskeiði sem missir algerlega
stjórn á skapsmunum sínum og eys úr skálum reiði sinnar yfir sína nánustu
fjölskyldu. Unglingnum er svo mikið niðri fyrir að hann hvæsir á litlu systur
að hún sé of feit, gerir grín að fölsku tönnunum hennar ömmu sinnar, segir
foreldrum sínum að þau séu auvirðilegt pakk og sparkar í köttinn. Ef fjöl-
skyldu unglingsins þykir raunverulega vænt um hann þá erfa þau þetta ekki
við hann heldur klappa honum á kollinn og segja: „Þetta verður allt í lagi – nú
líður þér betur. Svo skaltu setjast niður og skrifa reglulega góða bók handa
okkur því við vitum vel að þú getur það.“