Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 134
B ó k m e n n t i r
134 TMM 2006 · 2
Huginn Freyr Þorsteinsson
Pælt í Stefáni
Stefán Snævarr: Ástarspekt. Hið íslenska bókmenntafélag, 2004.
Í heimspeki, líkt og mörgum öðrum fræðigreinum, hefur þróun orðið í átt að
meiri sérhæfingu. Algengara er að heimspekingar láti sér nægja að fjalla um
tiltekið afmarkað viðfangsefni eða ákveðin vandamál en að þeir dragi upp
heildstæðar formúlur sem allt á að detta inn í. Þetta á ekki við um bók Stefáns
Snævars, Ástarspekt (titillinn vísar til gamallar þýðingar á hugtakinu „fílo-
sófía“), því Stefán lætur sér ekki nægja afmarkað svið innan heimspekinnar
heldur fjallar hann um hið sanna, hið góða og hið fagra, í anda gömlu grísku
heimspekinganna. Markmiðið er þó ekki að draga upp heildstætt heimspeki-
kerfi í anda Kants, Hegels eða Leibniz heldur að glefsa í hugmyndir á þessum
þremur sviðum og gefa okkur tækifæri til að meta afstöðu okkar til veraldar-
innar á gagnrýninn hátt.
Ekki er ætlunin í þessum ritdómi að gera grein fyrir öllu því fjölbreytta og
áhugaverða efni sem finna má í bókinni heldur tel ég affarasælast að gera grein
fyrir þeim þáttum sem ég held að Stefán hafi haft mest gagn af. Þetta má því
kalla pælingu í Stefáni, en hann telur að hugsa megi heimspeki sem pælingu í
pælingunni (17).
Líta má á Ástarspekt sem viðbrögð við kenningakerfi í heimspeki sem kennt
er við rökfræðilega raunhyggju (e. logical positivism) og reyndist einhver
áhrifamesta heimspekistefna 20. aldarinnar, beggja vegna Atlantsála. Oft er
því slegið fram að stefnan hafi verið þróuð af svokölluðum Vínarhring sem var
undir miklum áhrifum frá Gottlob Frege, Bertrand Russell, David Hume og
Ludwig Wittgenstein. Stefán fylgir raunar þeirri söguskoðun, en með henni er
ekki hálf sagan sögð (18). Auk Vínarhringsins má nefna tvo aðra hópa heim-
spekinga sem teljast þessari sögu mikilvægir – Berlínarhringinn (Reichenbach
og Hempel) og pólsku rökfræðingana Tarski, Leśniewski, Łukasiewicz og Kot-
arbiński. Rökfræðileg raunhyggja fékk einnig mikið af sínum eldsmat frá upp-
götvunum í eðlisfræði í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. Ernst Mach lagði
áherslu á útskýringar sem byggðust á sjáanlegum fyrirbærum, árangur náðist
í samþætta aflfræði, Einstein birti sína frægu ritgerðarþrennu 1905, Max
Planck leysti gátu rafsegulfræðinnar um svarthlutarof og David Hilbert lagði
grunn að nýrri rúmfræði.
Vegna árangurs í eðlisfræði, stærðfræði og rökfræði á þessum tíma var litið
til þess hvort ekki mætti yfirfæra einhvern lærdóm þaðan á heimspekina.
Þunglamaleg frumspekikerfi er áttu lítt skylt við veruleikann virtust sliga
heimspekina og engum virtist takast að leysa aldagömul heimspekileg vanda-
mál. Horft var þá til þess hvernig rökfræði gæti skerpt á hugtakanotkun og