Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Page 135
B ó k m e n n t i r
TMM 2006 · 2 135
hvernig eðlisfræði næði árangri með því að styðjast við staðhæfingar sem hægt
væri að sannreyna. Rökfræðin skyldi vera hið nýja tungumál vísinda og aðeins
þær fullyrðingar teldust merkingarbærar sem hægt væri að sannreyna. Full-
yrðinguna „það er penni á borðinu“ má auðveldlega sanna en ekki fullyrð-
inguna „guð er til“. Með þessar leikreglur að vopni var hægt að ganga hratt til
verks við að leysa gömul heimspekileg vandamál, enda fljótlegt að dæma klass-
ísk vandamál heimspekinnar merkingarlaus. Þannig ákvað hinn ungi austur-
ríski heimspekingur, Ludwig Wittgenstein, að hætta sem heimspekingur langt
fyrir aldur fram þar sem hann taldi sig hafa leyst öll vandamál heimspekinnar
í bók sinni Tractatus Logico-Philosophicus. Eins og frægt er orðið reyndist yfir-
lýsing hans ótímabær og lauk svo að hann sneri aftur til Kambárbryggju til
fyrri iðju og reif þá niður fyrri kenningakerfi af miklum móð. Í heimspekisög-
unni er talað um Wittgenstein hinn fyrri og Wittgenstein hinn síðari, svo
mikil þóttu hamskipti hans.
Stefán andæfir harðlega hinum fyrri Wittgenstein, fulltrúa rökfræðilegu
raunhyggjunnar, og notast þá við hinn síðari. Styðst hann meðal annars við
einkamáls- og sérreglurök hans. Merkilegust er þó sú hugmynd að hugtök eins
og vísindi, heimspeki, þekking og bókmenntir hafi ekkert eitt eðli sem sé hægt
að skilgreina þau út frá. Þannig getum við ekki skilgreint þekkingu sem rök-
studda sanna skoðun því um leið og við njörvum hugtakið nákvæmlega niður
virðist það hlaupa undan skilgreiningunni. Stefán kallar slík hugtök amöbu-
hugtök því „[þ]au virðast opin, teygjanleg, kljúfanleg í fleiri hugtök …“(37).
Sjálfur kallaði Wittgenstein þau fjölskylduhugtök en Stefán virðist hafna því
vegna þess að það gefi til kynna of sterk undirliggjandi tengsl milli þeirra.
Af þessu leiðir að við getum ekki skilgreint hvað vísindi séu og þannig ekki
vitað hvað aðgreinir þau frá hjáfræðum eða gervivísindum. Ómögulegt sé því
fyrir þróunarsinnann að neita sköpunarsinnanum um vist í aldingarði vísinda,
ef svo óheppilega má að orði komast. Raunar telur Stefán að vísindin séu ekki
á neinum sérstökum stalli hvað veitingu þekkingar eða aðgang að raunveru-
leika varðar. Þannig gerir hann bókmenntafræði að reynsluvísindum eins og
eðlisfræði og hagfræði. Listin hefur líka sérstöku hlutverki að gegna við að
tengja menn við raunheima. Virðist sem hvert af þessum sviðum dragi upp
fyrir okkur ákveðna heimssýn sem veiti okkur þekkingu: „Líkön náttúruvís-
indanna eru eins konar ýkjur, meðvitaðar einfaldanir á flóknum raunveru-
leika. Það eru einmitt einfaldanirnar og ýkjurnar sem hjálpa okkur við að skilja
reynsluheiminn betur í krafti þess að þær gefa okkur meiri yfirsýn og von um
að finna meginþættina í honum. Eitthvað svipað gildir um ýktar persónur í
skáldskap, að minni hyggju.“, segir hann í „Sannleik og Stuttungsmiði“(267).
Þessi skoðun hvílir á skynsemishyggju um skáldskap og aðrar listgreinar.
Í Ástarspekt má líka finna skemmtilegri samræðu, „Estetíkus. Samræða um
list og gildi“, en í henni ver Estetíkus þessa skoðun gegn viðmælanda sínum
Empiríkusi. Þann síðarnefnda má líta á sem fulltrúa rökfræðilegrar raunhyggju
en hann telur skarpan greinarmun vera á gildismati og staðhæfingum um
staðreyndir. Hægt er að mæla fjarlægðina milli Reykjavíkur og Þingvalla en