Tímarit Máls og menningar - 01.05.2006, Síða 136
B ó k m e n n t i r
136 TMM 2006 · 2
það er engin leið að mæla á samsvarandi hátt fegurð myndverks eða gæði
skáldsögu. Gildismat er huglægt, staðreyndadómar hlutlægir (192). Gegn
þessu teflir Estetíkus fram þeim rökum að til séu mælikvarðar á það hvað séu
góð eða slæm rök fyrir skoðun. Listgagnrýni tjái skoðanir og við getum metið
hana á yfirvegaðan hátt. Hann viðurkennir þó að þessi rök dugi einungis eitt-
hvað áleiðis til að sýna fram á að listrýni geti verið hlutlæg (216).
Þessi hefur-hver-sér-til-ágætis-nokkuð speki virðist líka ráða afstöðu Stefáns
til stjórnmála. Þó að hann ráðist harkalega og með sannfærandi hætti gegn
hugmyndafræði frjálshyggjunnar telur hann sitthvað henni til ágætis. Samt
fær mantra frjálshyggjunnar, hnattvæðingin, ekki góð meðmæli frá Stefáni. Í
„Ætti hagfræði að vera til?“ bendir hann á hvernig stórfyrirtæki ógni lýðræð-
inu með því að misnota aðstöðu sína og hvernig hnattvæðing auki ófrið fremur
en stuðla að friði í heiminum. Það felst samt einhver sannleikskjarni í ýkjum
frjálshyggjunnar rétt eins og sósíalismans (159).
Með þessum hætti tekst Stefán á við heimspekina – hann er heimspekilegur
tækifærissinni; velur það besta úr hverju hugmyndakerfi. Að því leyti er hann
ólíkur öðrum heimspekingi sem hann hefur mætur á, Hegel, sem bjó sér til
stórt hugmyndakerfi til að leysa gátur veraldarinnar. Það breytir ekki því að
Stefán virðist erfa frá honum trú á díalektík og að umræða sem slík skilji eitt-
hvað eftir handa okkur. Ekki sé um að ræða beina staðreyndaþekkingu heldur
það sem Stefán kýs að kalla „þögla þekkingu“, „þá þekkingu sem ekki verður
fulltjáð með orðum en sem menn geta sýnt að þeir hafi í krafti atferlis síns“
(258). Þess konar þekking, sem er líkari verkkunnáttu, leikur aðalhlutverk í
hugmyndaheimi Stefáns og má hún teljast nokkuð dulræn. Ekki er víst að Stef-
án teldi það löst á kenningu sinni þó að svo væri. Andóf og viðbrögð hans eru
við ofurtrú á gagnsæi alls í heiminum, að hægt sé að múlbinda allt í rökform,
úthýsa skáldskap og listum frá viskugyðjunni, og einhver ein formúla virki
sem leiðarvísir um heiminn – hann andæfir sem sé draug „rökfræðilegrar
raunhyggju“. En það má ef til vill hafa áhyggjur af dulhyggjunni sem virðist
lóna í bakgrunninum. Hvers vegna getum við stundum einungis ýjað að sann-
leikanum, til að mynda í skáldskap? Lýsir sú staðreynd takmörkum tungu-
málsins; ekki aðeins rökfræðin er takmörkuð heldur tungmálið líka og því
þurfum við á skáldskap og list að halda? Hvers eðlis er slíkur veruleiki?
Stefán virðist nefnilega vera að berjast gegn stífri formfræði og er slík afstaða
býsna róttæk. Í því ljósi finnst mér notkun hans á afsönnunarhyggju Karls
Poppers einkennileg. Fyrirferðarmest er hún í greininni „Ætti hagfræði að
vera til?“ þar sem hann notar hugmyndina miskunnarlaust til að pynta hag-
fræðinga. Þó að sú gagnrýni sé vel þekkt hefði Stefán mátt gera betur grein
fyrir notkuninni á henni því talsverð togstreita er milli þess sem hún boðar og
þess sem Stefán ber fram. Afsannanleikahugmynd Poppers var einmitt notuð
til að greina vísindi frá hjáfræðum, krýna vísindin sem konung skynseminnar
og þá einkum eðlisfræði. Þó standast aðeins nokkrar undirgreinar í eðlisfræði
stífar kvaðir um að vera með beinum hætti afsannanlegar. Auk þess eru
alþekkt vandmál við hugmyndina um afsannanleika en Stefán lætur sér nægja