Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 37
Væ n g i r h u g a n s
TMM 2006 · 4 37
stigann á flótta svo að kerlingin geti ekki galdrað hann fastan með
augnaráðinu eða breytt honum í frosk. Askur þarf að takast á við ótta
sinn og óöryggi, hann þarf að læra að treysta fólki. Varúlfurinn er flutt-
ur úr kjallaraíbúðinni en í stað hans er komin norn, í huga Asks.
Jón Yngvi Jóhannsson skrifar um textatengsl í Skilaboðaskjóðunni í
grein sinni „Í ævintýraskóginum“ og segir þar að verkið bendi meðal
annars á skyldleikann milli þeirra ævintýra sem það þiggur af.8 Upp-
byggingu Rauðhettu er einnig að finna í Engli í vesturbænum. Askur
ferðast frá öryggi til öryggis um hættusvæði en ferðalag hans fer að
miklu leyti fram um lendur hugans. Jón Yngvi segir ennfremur um
Skilaboðaskjóðuna: „Spurningin er því hvort hún bendi ekki líka á það
hvernig raunveruleiki okkar er settur saman úr textum.“ Þetta á einnig
við um Engil í vesturbænum sem vekur lesandann til umhugsunar um
mörk raunveruleika og skáldskapar. Þekking lesandans eykst er hann
eldist, lærir meira og öðlast reynslu. Því getur bók sem þessi vaxið með
lesendum sínum.
Er líða tekur á verkið þroskast Askur og lærir að takast á við blendnar
tilfinningar sínar. Ábyrgðartilfinning gagnvart litla bróður hans verður
til þess að hann ákveður að fara í ferðalag. Hann ætlar að gefa honum
verndarengilinn sinn. Hann á að passa litla bróður svo hann verði aldrei
hræddur. Þessar breytingar eru augljósar í myndmálinu. Glaðlegur gulur
litur verður áberandi í bakgrunni og á síðustu opnunni svífur strætis-
vagninn sem Askur er í uppávið til hægri í átt að nýjum ævintýrum.
Eftirminnileg heildarmynd
Náið samspil texta og mynda gerir myndabókina að spennandi formi og
Engill í vesturbænum er gott dæmi um það hvernig þessi tvö táknkerfi
vinna saman að því að miðla margræðu söguefni. Hugleiðingar Asks
myndgerast og myndmál er nýtt til hins ýtrasta til að sýna tilfinningar
eins og einsemd og vináttu, óöryggi og gleði. Myndhverfingar eru not-
aðar á frumlegan hátt og myndrænt táknmál eins og markviss notkun á
dyrum og gluggum er notað til að koma líðan Asks til skila. Gáskafullur
húmor og tvíræðni gæða myndirnar lífi og verkið talar bæði til barna og
fullorðinna.
Litanotkun er beitt til að endurspegla sálarlíf Asks og sýna breyt-
ingar sem verða á því er líður á söguna. Andstæður, hliðstæður og end-
urtekningar í formi og litum skerpa tilfinningu fyrir því sem er að
gerast. Mismunandi stílbrigði kallast á við frásagnartækni verksins og
falla vel að stuttum hugleiðingum Asks. Stærð, hlutföll og staðsetning