Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Page 59
S a m v i s k a n
TMM 2006 · 4 59
Mariönu varð kalt. „Ég þoli þetta ekki lengur, það er ekki hægt að
lifa svona. Ég segi honum að hann verði að koma sér héðan. Það er
ekkert líf að búa við svona ógnun.“ Henni fannst hún vera veik,
veik af hræðslu. Þetta með Constantino hafði tekið enda vegna
hræðslu hennar. Tennurnar í henni skulfu við tilhugsunina eina.
Hún vissi að Antonio myndi drepa hana. Já, hún var sannfærð um
að hann dræpi hana. Hún þekkti hann vel.
Þegar hún sá vagninn hverfa úr augsýn á þjóðveginum fór hún
niður í eldhúsið. Gamli maðurinn dottaði þar við glæðurnar. Hún
virti hann fyrir sér og hugsaði með sér: „Væri ég nógu hugrökk
dræpi ég hann.“ Járntangirnar voru þarna, rétt í seilingarfjarlægð,
en hún myndi ekki gera það. Hún vissi að það gæti hún ekki.
„Ég er ekkert annað en skræfa, hrein og bein skræfa. Og mér
þykir of vænt um lífið.“ Það var einmitt það sem fór með hana –
þessi ást á lífinu …
– Góði minn, stundi hún. Jafnvel þótt hún segði þetta lágum
rómi opnaði flækingurinn annað illyrmislegt augað. „Hann var þá
ekki sofandi,“ hugsaði Mariana, „nei, hann var ekki sofandi, gamli
refurinn sá arna.“
– Komdu með mér, sagði hún, – ég þarf að eiga við þig orð.
Gamli maðurinn gekk í humátt á eftir henni að brunninum.
Þar sneri Mariana sér við og horfði á hann.
– Þú getur gert það sem þú vilt, hundurinn þinn. Þú mátt segja
manninum mínum frá öllu saman, ef þú vilt. En héðan hefurðu
þig á brott, og það samstundis …
Gamli maðurinn þagði um stund. Síðan brosti hann.
– Hvenær kemur húsbóndinn heim?
Mariana fölnaði. Gamli maðurinn leit á fallegt andlit hennar, á
baugana. Hún hafði horast.
– Komdu þér burt, sagði Mariana. – Farðu strax héðan.
Hún sat föst við ákvörðun sína. Já, flækingurinn las það úr
augnaráði hennar. Hún var harðákveðin og full örvæntingar.
Hann var lífsreyndur og þekkti þetta augnaráð. „Þá er ekkert við
því að gera,“ hugsaði hann með sér heimspekilega. „Þá er góða
tíðin liðin. Kjarnmiklu máltíðirnar, beddinn, ábreiðurnar, allt
búið. Svona, gamli minn, komdu þér nú áfram, komdu þér nú
áfram. Maður verður víst að tóra þetta.“