Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Side 96
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
96 TMM 2006 · 4
og verða eftirminnilegar. Í fyrri hluta bókarinnar eru sögur og kvæði sem
samin voru á íslensku, en í seinni hlutanum eru þýddar sögur eftir höfunda af
íslenskum ættum sem skrifa á ensku. Í bókarauka er ítarleg bókfræði um
íslensk-kanadískar bókmenntir, skrá yfir efni sem hefur birst í bókum, blöðum
og tímaritum. Þetta er afskaplega þarft framtak og á Garðar miklar þakkir
skildar fyrir.
Í haust kom út 25. bindi Íslenskra fornrita með tveimur sögum, Færeyinga-
sögu og Ólafssögu Odds, Ólafur Halldórsson sá um útgáfuna (Hið íslenzka
fornritafélag). Þarna stíga þeir fram, hrekkjalómurinn Þrándur í Götu og
Ólafur Tryggvason sem kristnaði Íslendinga, enda gerir Oddur hann að hálf-
gerðum Jóhannesi skírara – Ólafur helgi er þá í hlutverki Krists.
Bókaflóðið er rétt að byrja þegar þetta er ritað en nokkrar bækur hafa þegar
borist Tímaritinu. Bjartur er verulega sterkur í útgáfu ljóðabóka. Þar koma út
nýjar ljóðabækur Óskars Árna Óskarssonar, Loftskip, og Vésteins Lúðvíksson-
ar, Sumir láta einsog holdið eigi sér takmörk, líka ljóðabók Ingunnar Snædal
sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar í haust, Guðlausir
menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást. Þetta er opinská og heit bók, per-
sónuleg og þrungin ástríðu, og verulega gaman að lesa slíka bók eftir unga
konu. Hún byrjar á þessari stöku:
Ég blotna í báða fætur þegar ég geng yfir ána. Samt er
ég í gulum gúmmískóm. Hefði líklega frekar átt að fara
aðeins neðar, þar sem hægt er að stikla á steinum næstum
alla leið yfir. En þá hefði ég þurft að taka á mig krók. Og
þegar maður er í öngum sínum og veður beint af augum
er hallærislegt að taka á sig krók. Svolítið eins og maður
sé ekki í nógu miklum öngum.
Önnur mergjuð ljóðabók er The disastrous tale of Vera & Linus eftir Þórdísi
Björnsdóttur, sem lesendur TMM kannast við, og Jesse Ball. Hún er á ensku en
gefin út af Nýhil. Vera og Línus eru ekkert venjulegt kærustupar og bókin er
ekki auðveld aflestrar, hún er ofbeldisfull og minnir mest á bíómyndir um
óþekk ungmenni sem einangra sig frá öðru fólki, bæla ekki hvatir sínar heldur
sleppa þeim lausum af fullkomnu kæruleysi. Ef hundsgelt fer í taugarnar á þér,
hvað gerirðu þá? Nú, brýst inn í íbúð grannans og drepur kvikindið! En þetta
er iðulega snjall texti.
Íslensku barnabókaverðlaunin voru veitt í september og þau hlutu að þessu
sinni tvær bækur, nýstárlegt myndskreytt ævintýri fyrir yngri lesendur og
ferðasaga frá Kína fyrir stálpaða krakka (Vaka-Helgafell). Sú síðarnefnda,
Háski og hundakjöt, frumraun Héðins Svarfdals Björnssonar, segir frá Aroni
Birni sem fær óvænt að ferðast til Kína með föður sínum og lendir í miklum
ævintýrum. Það er Liverpool-bolurinn sem hænir innfædda krakka að honum,
enda alþjóðlegt merkjamál, og þegar hann hefur sýnt þeim hvað hann kann í
fótbolta er hann maður dagsins. Stíllinn er nokkuð viðvaningslegur en frá-