Tímarit Máls og menningar - 01.11.2006, Qupperneq 103
M y n d l i s t
TMM 2006 · 4 103
mynstri samtímans og byggir á hópefli vinskapar, sem gjarnan teygir sig aftur
til námsáranna þegar samkeppni var enn ekki farin að taka toll af kunnings-
skapnum. Þannig hafa orðið til vinjar verndaðra samfélaga þar sem listamenn
geta hegðað sér eins og á heimavelli, lausir við óþægileg inngrip „skyni skropp-
ins“ almennings. Gallerí SÚM, Suðurgata 7, Nýlistasafnið, Kling & Bang og
Klink & Bank eru dæmi um þess háttar skynfræðilegar samskiptavinjar, sem
Bourriaud fjallar um í Esthétique relationelle.
Listin sem verður til í slíku umhverfi er oftar en ekki gagnvirk. Hún verður
til á staðnum, í sýningarrýminu, hvort sem það er gatan, gallerí, söfn, vinnu-
stofa, sýningarsvæði, sameiginlegir salir eða heimahús. Ef til vill kvarta menn
undan því að skynfræðileg samskiptalist sé heldur formlaus þótt hún sé efn-
iskennd. Birtingarmyndin er gjörningar, tækifærisskipan af hvers konar tagi
og rafrænir miðlar á borð við myndbönd eða tölvuskjávarp. En hvað er form?
Klassískt svar mundi ábyggilega vera eitthvað á þá leið að form væri útlínur
þær sem umlykja innihaldið. Franski kvikmyndagagnrýnandinn Serge Daney
svaraði því þó til að form væri ætíð andlit sem snúið væri að okkur; langanir
okkar og þrá andspænis innhaldi sem er ekki annað en bakgrunnur þegar við
erum horfin á braut.5
Það eru engin raunveruleg form í óspilltri náttúru því það erum við, sem
með augnaráði okkar búum þau til. Form fæðast eitt af öðru og viðhorf okkar
til þeirra breytast frá einni tíð til annarrar. Það sem kallað var formleysa áður
fyrr, eða óformleg list þarf ekki að vera það lengur. Með framþróun skyn-
fræðilegrar – öðru nafni fagurfræðilegrar – umræðu tekur staða formsins
stakkaskiptum í beinu hlutfalli. Þannig er svo komið að myndlist getur tekið á
sig form leikara, sem fremur gjörning, eða leikmyndar, þegar listamenn ákveða
að setja upp kaffihús eða bar sem stefnumótastað í sýningarsal. Öll myndlist
frá örófi alda hefur að einhverju marki verið samskiptaleg en á síðustu fimm-
tán árum hefur gagnvirkt eðli hennar komið betur í ljós en nokkru sinni fyrr
og má þar að hálfu leyti þakka tækninýjungum á sviði myndvarps og fjar-
skipta.
Það er þó deginum ljósara að skynfræðileg samskiptalist stendur ekki ein og
óstudd undir birtingarmyndum samtíma myndlistar. Hún verður að eiga sér
trausta fylginauta í öðrum miðlum, auk skipulegrar upplýsingaþjónustu þar
sem unnið er að því með ráðum og dáð að uppfræða þá sem standa utan við
listheiminn um hræringarnar innan hans. Því miður hefur fjölbreytni sjaldn-
ast verið styrkur íslenskrar listar og stafar það sjálfsagt af ýmsum, ólíkum
ástæðum, sem bæði má rekja til mannfæðar og sjálfhverfrar afstöðu okkar litla
listheims. Það hefur því oftast verið hlutskipti okkar að setja á hverjum tíma öll
eggin í eina körfu og gleyma að listheimur er flókið fyrirbæri, sem rækta verð-
ur samtímis á sem flestum sviðum. Þessa staðreynd hefur verið erfitt að bera á
borð fyrir aðstandendur hans. Vonin um að eitthvað utanaðkomandi verði
okkur til bjargar, taki af okkur ómakið og reddi okkur fyrir horn varnar því að
við girðum okkur í brók og styrkjum innviði listheims okkar í stóru sem
smáu.