Tímarit Máls og menningar - 01.05.2007, Page 88
88 TMM 2007 · 2
Sigmund Freud
Dostojevskí og föðurmorðið
Í mikilhæfum persónuleika rússneska rithöfundarins Dostojevskís má aðgreina
fjóra þætti: Rithöfundinn, hinn taugaveiklaða, siðapostulann og syndarann.
Hvernig er hægt að rata leiðar sinnar um þær margsnúnu samfléttur?1
Ekki þarf neitt að velkjast í vafa um rithöfundinn. Hann á sitt sæti rétt að
baki Shakespeare. Karamazov-bræðurnir er merkilegasta skáldsaga, sem nokk
urn tíma hefur verið skrifuð.2 Frásögnin um rannsóknardómarann mikla er
einn af hátindum heimsbókmenntanna og verður vart ofmetin. Því miður
verður sálgreining að leggja niður vopnin andspænis skáldgáfunni.
Auðveldast er að herja á siðapostulann Dostojevskí. Vilji maður gera honum
hátt undir höfði í siðferðilegum efnum á þeirri forsendu, að einungis sá nái
hámarki siðferðisþroska sem mest hefur syndgað, gleymum við einu álitaatriði.
Sá er siðferðislega þroskaður sem bregst við freistingum, sem hann finnur fyrir
innra með sér, ánþess að falla fyrir þeim. En hver sá sem annað slagið syndgar,
en iðrast svo og gerir háar siðferðiskröfur, má búast við ásökunum um að fara
of auðvelda leið. Honum hefur skrikað fótur á aðalatriði siðferðisins, sem sagt
því að láta á móti sér. Því að siðlegt líferni er að sýna mannúð í verki. En hann
minnir á villimenn þjóðflutninganna sem myrtu og gerðu síðan yfirbót, svo að
yfirbótin varð beinlínis aðferð til að hægt væri að myrða. Ívan grimmi hafði
ekki annan hátt á. Raunar eru þessir samningar við siðferðið dæmigert rússn
eskir. Eftir að maðurinn hefur háð hið harðasta stríð milli ástríðna sinna og
samfélagslegra krafna og reynt að miðla þar málum á milli, varpar hann sér
fyrst um sinn í undirgefni undir veraldlegt og andlegt vald, af óttablandinni
virðingu fyrir zarnum og guði kristinna manna og staldrar við í þröngsýnni
rússneskri þjóðernissstefnu, sem meðalmanninum verður auðveldari. Hér er
veikur hlekkur í mikilhæfum persónuleika. Dostojevskí hefur látið undir
höfuð leggjast að gerast kennari og frelsari manna en gerst bandamaður fanga
varðanna. Menningarleg framtíð mannkyns á honum fátt að þakka. Líklegt er
að taugaveiklun hans eigi sök á því að svo fór. Hinar miklu gáfur hans og
mannkærleiki hefðu getað opnað honum annað og postullegra líferni.
Það kallar á kröftug mótmæli að líta á Dostojevskí sem syndara og afbrota
mann og þarf þar ekki til að koma neitt fílistískt viðhorf til afbrotamanna.
Brátt verður ljóst hver hin raunverulega ástæða er. Tvennt auðkennir afbrota