Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 2
2 TMM 2008 · 3
Frá ritstjóra
„TMM kom inn úr dyrunum í dag og ég hef verið að kíkja í það þó ég eigi
auðvitað að vera að fara yfir próf,“ skrifaði Guðmundur. „Ég er búinn að lesa
Stefán Sigurkarlsson lyfsala sem mér fannst drepfyndinn, þetta verður áreið-
anlega metsölubók hjá honum. Greinin um Málfríði er líka mjög góð svo og
ritdómurinn hans Ármanns um Einar Má Jónsson, orð í tíma töluð.“ Honum
fannst að heftið ætti að laða læknastéttina að ritinu, bæði vegna frásagnar Stef-
áns af lífi lyfsala í litlum bæ, viðtalsins við Magnús Karl Pétursson lækni og
heimsósómakvæðis Ögmundar Bjarnasonar læknis. Annar læknir og skáld,
Ari Jóhannesson, hafði líka orð á því í bréfi að kvæði Ögmundar væri „djöfull
gott“! Ekki hafa stórir hópar lækna þó tekið við sér, hvað sem síðar verður.
Fyrstur hafði samband út af síðasta hefti Þorsteinn frá Hamri og kunni vís-
una eftir Stein sem lýst var eftir í pistli ritstjóra, Á líðandi stund. Hann lærði
hana af Sigfúsi Daðasyni sjálfum og hún er svona:
Firðar segja femme de chambre
föngulega á velli.
Raunir mínar á rue Delambre
rek ég í hárri elli.
Ásdís Kvaran bað um leiðréttingu á villu í tilvitnun í kvæði Steingríms Thor-
steinssonar, „Ég elska yður, þér Íslands fjöll“, í umsögn Böðvars Guðmunds-
sonar um ljóðabók Gerðar Kristnýjar. Rétt er tilvitnunin svona og bið ég ykkur
að laga þetta í eintökum ykkar:
Svo traust við Ísland mig tengja bönd,
ei trúrri binda son við móður.
Einar Laxness hafði samband og taldi að Þórir sá sem Magnús Karl Pétursson
hitti á Spáni haustið 1955 og þekktastur var fyrir afrek sín í skák hefði verið
Ólafsson en ekki Helgason eins og Magnús segir.
Margir lesendur höfðu orð á bréfi Grete Cox til Málfríðar með mikilli
ánægju. Meðal annars efnis sem sérstaka athygli vakti voru hækur Vilborgar
Dagbjartsdóttur til heiðurs Helga Hálfdanarsyni, grein Úlfhildar Dagsdóttur
um myndasögur, móðurminning Óttars M. Norðfjörð og umfjöllun Arndísar
Þórarinsdóttur um Ívanov og Brúðgumann. Nokkrir höfðu orð á fögrum loka-
orðum Böðvars um bók Gerðar Kristnýjar, en Gerður sjálf sagði af örlæti að
henni fyndist full ástæða til að halda hátíð þegar efni á borð við Barnið og
klukkuna, smásögu Jóns Atla Jónassonar, kæmi á prent.
Framundan er menningarvetur og við fylgjum ykkur á leið,
Silja Aðalsteinsdóttir