Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Page 10
10 TMM 2008 · 3
Jónas Sen
Ferðin á heimsenda
Ég hef þekkt Björk Guðmundsdóttur síðan árið 1990.
Sumarið það ár var einstaklega sólríkt, og eins og títt er um tónlist-
arkennara var ég í þriggja mánaða sumarfríi. Ég vandi komur mínar á
hinn svokallaða N–1 bar, þar sem Sirkus var síðar til húsa. Garðurinn á
bak við barinn var alltaf opinn og það var unaðslegt að sitja þar í sól-
skininu og drekka kaffi.
Björk var þarna stundum og hún hafði frétt af því að ég væri á leið til
London í nám þá um haustið og að ég myndi búa í íbúð sem hún þekkti
til. Það var frekar stór íbúð á mælikvarða námsmanns og Björk spurði
mig hvort hún mætti gista hjá mér, því hún ætlaði að gera sína fyrstu
sólóplötu og þyrfti bráðlega að fara til London til að vinna með ein-
hverju tónlistarfólki, en ætti enga peninga.
Það var auðsótt mál. Einn daginn þegar ég var tiltölulega nýbúinn að
koma mér fyrir bankaði hún upp á hjá mér. Hún bjó hjá mér í nokkrar
vikur og svaf ávallt undir flyglinum í öðru svefnherberginu, enda var
það eina plássið í boði.
Platan hennar, Debut, kom út tveimur eða þremur árum síðar og sló í
gegn eins og allir vita. Síðan þá hefur sigurganga Bjarkar verið óslitin og
það var því mikill heiður að vera boðið að taka þátt í heimsreisu sem átti
að hefjast vorið 2007 og standa yfir í eitt og hálft ár.
Ég hafði aldrei gert neitt þvíumlíkt áður, raunar ekki komið nálægt
annarri tónlist en klassík – nema þegar Hilmar Örn Hilmarsson plataði
mig til að spila undir dulnefni á plötu með Kamarorkhestum fyrir
mörgum árum. Jú, svo lék ég lítillega inn á tvær plötur Bjarkar (Drawing
Restraint og Volta), en þetta verkefni var af talsvert annarri stærð-
argráðu. Ég átti að spila á ýmiskonar hljómborðshljóðfæri í hljómsveit-
inni, sem að öðru leyti átti að samanstanda af trommuleikara og tveim-
ur tölvuséníum, auk þess sem sveit tíu kvenna átti að spila á málmblást-
urshljóðfæri, syngja og leika ýmsar aðrar kúnstir.