Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 11
TMM 2008 · 3 11
F e r ð i n á h e i m s e n d a
Fyrstu tónleikarnir
Eftir nokkurra mánaða undirbúning, þar af þriggja vikna æfingu í Hell-
inum, skuggalegu húsnæði úti á Granda, var komið að fyrstu tónleika-
uppákomunni. Hún fór fram á Nasa. Þetta voru styrktartónleikar þar
sem við komum fram ásamt mörgum öðrum og fluttum þrjú lög, Björk,
brassbandið (þær vildu ekki kalla sig lúðrasveit) og ég.
Ég hafði aldrei áður komið fram á rokktónleikum og þeir komu mér
spánskt fyrir sjónir. Um helmingur áhorfenda tók myndir í gríð og erg,
og flestir dilluðu sér í takt við tónlistina. Það var mér nýlunda. Á sinfón-
íutónleikum sitja allir prúðir og dirfast ekki einu sinni að hvísla. Sá sem
leyfir sér að opna munninn fær illt auga frá nálægum tónleikagestum.
Ég man ekki heldur eftir að hafa séð nokkurn dansa á tónleikum. Það
væri skondið að sjá það gerast í Kammermúsíkklúbbnum!
Stemningin á Nasa var þó ekkert miðað við fyrstu sjálfstæðu tón-
leikana í Laugardalshöllinni viku síðar. Múgæsingurinn kom mér ger-
samlega í opna skjöldu. Þar sem ég sat á sviðinu sá ég verði reyna að
halda fólkinu í skefjum, sem öskraði á eftir hverju einasta lagi. Margir
stigu líka trylltan dans. Enda gengu tónleikarnir býsna vel miðað við að
þetta var í fyrsta sinn sem allur hópurinn, nú líka tölvugúrúarnir Mark
Bell og Damian Taylor, og trommuleikarinn Chris Corsano, spiluðu
saman opinberlega. Ég var gríðarlega taugaóstyrkur og svo uppgefinn
eftir tónleikana að ég treysti mér ekki til að skemmta mér með hópnum
síðar um kvöldið. Í staðinn fór ég heim með magapínu, lagðist í sófa og
starði út í loftið tímunum saman á meðan ég beið eftir að verkurinn liði
hjá.
Saturday Night Live
Upphafstónleikarnir okkar í Bandaríkjunum, þangað sem leiðin lá fyrst,
voru um þremur vikum síðar. Við þurftum þó að fara út mun fyrr. Það
var vegna þess að Björk hafði verið boðið að syngja tvö lög í sjónvarps-
þættinum Saturday Night Live, en hann er einn sá vinsælasti þar í landi.
Eins og nafnið ber með sér er þátturinn sýndur í beinni útsendingu og
það er enginn smáræðis fjöldi sem horfir á hann, um fimmtíu milljónir
eftir því sem ég best veit.
Saturday Night Live er á vegum NBC sjónvarpstöðvarinnar og að
koma þangað er upplifun út af fyrir sig. Gangarnir eru gullslegnir,
skreyttir árituðum myndum af þekktum leikurum og myndverin eru
þau alglæsilegustu sem ég hef séð. Hin heimsfræga leikkona, Scarlett