Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 14
14 TMM 2008 · 3
J ó n a s S e n
Eins og áður sagði var hitinn skelfilegur. En þegar tók að rökkva dró
mjög úr honum, satt best að segja var orðið hálfkalt þegar röðin kom að
okkur að stíga fram á sviðið.
Það var sérkennileg tilfinning að eiga að fara að spila fyrir hátt í
hundrað þúsund manns. Rétt áður voru ljósin slökkt og þá öskraði
æstur fjöldinn. Að heyra svona marga öskra út af einhverju sem maður
var að fara að taka þátt í, nánast í fyrsta skiptið, var vægast sagt óhugn-
anleg upplifun. Það er eins og að vera skylmingaþræll í þann veginn að
fara að berjast fyrir lífi sínu. Ég ætlaði ekki að þora að ganga fram fyrir
áheyrendur.
Tónleikarnir tókust þó ágætlega, sérstaklega miðað við að þetta voru
í rauninni fyrstu alvörutónleikarnir okkar. Tónleikarnir í Laugardals-
höllinni voru nokkurskonar aðalæfing, enda vantaði þar ýmislegt eins
og leysigeislana og fánana, en hvort tveggja var mikilvægur hluti af
sjónarspilinu. Núna var flest eins og það átti að vera.
Hvaða fánar voru þetta annars? Jú, þeir tengdust laginu sem alltaf var
síðast á hverjum tónleikum. Þótt efnisskráin, eða lagalistinn eins og hún
heitir í poppheiminum, hafi verið síbreytileg (enda kunnum við um
fjörutíu lög en aðeins tæplega tuttugu voru flutt á hverjum tónleikum)
var seinna aukalagið alltaf það sama, Declare Your Independence.
Eins og margoft kom fram í fjölmiðlum tileinkaði Björk lagið sjálf-
stæðisbaráttu ýmissa þjóða, en það er líka um sjálfstæðisbaráttu ein-
staklingsins undir ýmsum kringumstæðum. Lífið er barátta og maður er
sífellt að kljást við að brjóta af sér allskonar fjötra. Af þessum ástæðum
þótti Björk viðeigandi að hver hljóðfæraleikari hefði sinn fána á sviðinu.
Við máttum ráða því hvernig fáninn liti út, og fáninn minn var af Tré
lífsins úr heimi kabbalismans. Nú er ég ekki í kabbala–söfnuði Madonnu,
en ég er dulhyggjumaður og Tré lífsins er einn af hornsteinum vestrænn-
ar dulhyggjuhefðar. Það er nokkurskonar landakort af sálinni, táknar
bæði ytri veruleikann og ósýnilegar, dýpri hliðar hans. Á vissan hátt
sýnir það allan heiminn og hvað er betra tákn fyrir heimsreisu?
Sofandi í rútu
Eftir Palm Springs flugum við aftur til New York þar sem við vorum
með þrenna tónleika á þremur mismunandi stöðum. Síðan var stigið
upp í rútur, alls voru þær þrjár talsins, enda hópurinn rúmlega þrjátíu
manns (ríflega helmingurinn af honum tæknimenn), og þannig ferð-
uðumst við yfir Bandaríkin, allt til Seattle og héldum marga tónleika á
leiðinni.