Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 15
TMM 2008 · 3 15
F e r ð i n á h e i m s e n d a
Einhverntímann þegar ég var í fríi á Íslandi og var að keyra með
móður minni úti á landi, fórum við fram úr rútu. Það var stærsta gerð
af rútu sem þekkist hér á landi. Móðir mín spurði mig hvort rútan sem
ég hefði verið í á þessum fyrsta hluta túrsins hefði verið jafnstór. Ég
svaraði að hún hefði verið miklu, miklu stærri! Svona túrarúta er engin
smásmíði. Í minni rútu voru hvorki meira né minna en tólf rúm og tvær
litlar stofur.
Mér leist samt ekkert á fyrirkomulagið í fyrstu, ég var hreinlega ekki
viss um að ég gæti yfirhöfuð sofið í rútu á ferð. Og þegar ég lagðist upp
í rúm í fyrsta sinn fékk ég skelfilega innilokunarkennd. Ég hugsa líka að
plássið á milli rúmsins og loftsins hafi ekki verið meira en 70 sentímetr-
ar. En svo fór mér að finnast ruggið í rútunni undarlega notalegt. Það
var eins og að vera ungabarn og mamma væri að rugga mér í svefn!
Enda steinsofnaði ég.
Nú má ekki halda að við höfum alltaf verið í rútum. Við ferðuðumst
í rútum í Bandaríkjunum og Evrópu en ekki í Suður Ameríku, Asíu,
Ástralíu, Nýja Sjálandi og í síðari Evróputúrnum í sumar. Og meira að
segja þegar við vorum í rútunum stoppuðum við alltaf af og til og gist-
um á hótelum. Rödd Bjarkar leyfir ekki fleiri tónleika en þrenna á viku
– í mesta lagi. Það þýðir að við höfðum nægan tíma til að hvíla okkur á
milli tónleika, nota tímann og skoða. Þessa daga gistum við á hótelum.
Paul McCartney og tónlistarhátíðir
Ég sagði hér að ofan að ég hefði hitt fullt af frægu fólki á túrnum. Þar á
meðal var Paul McCartney, en hann kom fram í þætti Jools Holland,
Later, á BBC. Björk kom líka fram í þættinum og við fluttum tvö eða
þrjú lög. Þetta var í júní og við vorum tiltölulega nýkomin frá Bandaríkj-
unum. Hugmyndin var að við fengjum um mánaðarfrí á milli ferðalaga,
sem einnig myndu taka um mánuð í hvert sinn. Það gekk ekki alltaf
eftir. Nokkrum dögum áður en fyrsta fríið átti að byrja fékk Björk boð
um að koma fram í sjónvarpsþættinum, svo eftir stutt stopp á Íslandi
var stokkið aftur í flugvél og flogið til London.
Ólíkt Saturday Night Live var þetta ekki bein útsending svo spenn-
ingurinn var ekki eins mikill. En upplifunin var engu að síður skemmti-
leg. Sex eða sjö hljómsveitir komu fram í þættinum og var þeim raðað
umhverfis kringlótt gólf, og gekk Holland á milli til að kynna þær. Við
vorum beint á móti McCartney og í upphafi þáttarins tóku allar hljóm-
sveitirnar þátt í að spila stutta hendingu af fingrum fram; á undan hafði
verið ákveðið að hún ætti að vera í tiltekinni tóntegund. Holland tók