Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Page 21
TMM 2008 · 3 21
F e r ð i n á h e i m s e n d a
sem við hvíldum okkur í viku, síðan héldum við tónleika í Jakarta,
Seoul, Tokyo, Osaka, Hong Kong og Sjanghæ.
Ég á bara góðar minningar frá þessum borgum. Ég meira að segja
grenntist, enda maturinn í Asíu talsvert fitusnauðari en annars staðar á
túrnum. Flestir fitna á svona ferðalögum, maður dettur auðveldlega í að
borða ruslfæði og brauðátið er oft fram úr hófi. Í Asíu er skyndibitafæði
mun hollara en í Bandaríkjunum.
Þar sem ég er af kínverskum ættum var sérstök upplifun fyrir mig að
koma til Kína. Afi minn eyddi síðustu árum ævi sinnar í Sjanghæ og ég
fór í hálfgerða pílagrímsför þangað sem hann bjó. Tónleikarnir í borg-
inni voru líka sögulegir eins og flestir muna, en á þeim nefndi Björk
nafn Tíbets nokkrum sinnum. Þá fór allt í háaloft, þótt það gerðist ekki
samstundis. Mér fannst ég reyndar finna fyrir kulda frá tónleikagestum,
en strax eftir tónleikana virtist allt eins og það átti að vera. Það var
meira að segja mjög gaman. Við fórum nokkur saman á óvenjufagran
veitingastað sem áður hafði verið breska ræðismannsskrifstofan í
Sjanghæ. Þar hvarf maður inn í rómantíska fortíðarveröld; mér leið eins
og í sögu eftir W. Somerset Maugham. Það var ógleymanleg stund.
Náttúrutónleikarnir
Eftir Asíu héldum við heim á leið í byrjun mars og það var ekki fyrr en
um miðjan apríl að næsti hluti túrsins (og sá næstsíðasti) hófst. Hann fór
eingöngu fram á Englandi og Írlandi og stóð í tæpan mánuð. Meðal
annars héldum við þrenna tónleika í London. Gagnrýnin sem við feng-
um var frábær, en tónlistargagnrýnendur þar í borg eru drápsvélar.
Maður tekur meira mark á góðum dómum frá slíkum náungum en frá
þeim sem eru alltaf jákvæðir.
Við fengum líka flotta dóma um tónleikana í París um Jónsmessu-
leytið. Þeir mörkuðu upphaf lokahluta túrsins og voru kvikmyndaðir.
Náttúrutónleikarnir í Laugardalnum voru haldnir nokkrum dögum
síðar og fóru væntanlega ekki framhjá neinum. Tónleikarnir og boð-
skapurinn sem þeim var ætlað að vekja athygli á olli gífurlegu fjaðrafoki
sem oft var byggt á misskilningi. Ég hyggst þó ekki hætta mér út í þá
umræðu hér sem þyrfti sérstakt pláss. En það var gaman að koma fram
á tónleikunum. Þeir tókust ágætlega fyrir utan það að Björk var veik og
rödd hennar hljómaði ekki eins vel og hún á að sér.
Eiginlega hafði ég töluverðar áhyggjur af henni, bæði á undan og á
eftir tónleikunum í Laugardalnum. Á tímabili óttaðist ég meira að segja
að öllum síðasta hluta túrsins yrði aflýst. Sá ótti reyndist ekki með öllu