Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 24
24 TMM 2008 · 3
Magnús Sigurðsson
Afskriftir
(homage)
Á köldum vetrardegi í Reykjavík festi ég kaup á hinu stórgóða sagnasafni
Hannesar Péturssonar skálds Ljóðabréf, útgefin 1973 af Helgafelli. Ég
hafði eytt deginum niðri í miðbæ ásamt unnustu minni spænskri, en
vetrarkuldinn öðru hvoru rekið okkur inn í verslanir og kaffihús mið-
borgarinnar. Í stað þess að fylgja unnustu minni inn í verslun Fríðu
frænku þegar á Vesturgötuna var komið skaust ég hins vegar fyrir horn-
ið og sagðist skyldu bíða hennar á fyrstu hæð Borgarbókasafnsins. Í
kaffikrók safnsins vissi ég af bókum til sölu. Afskrifuð eintök safnkosts-
ins liggja þar frammi, föl fyrir hundrað krónur hvert, og gróf ég Ljóða-
bréf Hannesar upp úr þeim bunka áður en yfir lauk.
Ég naut þess að renna augum yfir hillur og rekka skotsins þar sem
bækurnar stóðu og láta heitan blástur ofnanna ylja fótum mínum og
höndum. Ég fór mér að engu óðslega enda vissi ég sem var að unnustu
minni ætti eftir að dveljast drjúga stund á Vesturgötunni, innan um
antíkmuni Fríðu frænku sem hún heldur svo mikið upp á í kjölfar síð-
ustu heimsóknar til landsins sumarið sem leið.
Þrátt fyrir kostakjör á ýmsum góðum gripum ákvað ég þó strax að ég
skyldi ekki klyfja mig bókum heldur velja aðeins eina úr, og vonaði hálft
í hvoru að unnusta mín myndi gera slíkt hið sama í sínum leiðangri.
Bæði erum við gjörn á að safna ýmiskonar „óþarfa“ í herbergiskompuna
okkar suður á Spáni, og takmarka þannig enn frekar það litla rými sem
við höfum umleikis.
Þegar upp var staðið, er ég hafði af samviskusemi lesið á kili allra
hinna afskrifuðu eintaka, varð ég að gera upp á milli tveggja áþekkra
bóka: fyrrnefndra Ljóðabréfa Hannesar Péturssonar og sagnasafnsins
Komið til meginlandsins frá nokkrum úteyjum eftir Kristján Karlsson
New York–skáld. Að lokum varð Hannes ofan á, og greiddi ég uppsett
verð í afgreiðslu safnsins. Hundrað krónur rukkaðar fyrir hin afskrif-
uðu ljóðabréf, takk fyrir.