Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Page 26
26 TMM 2008 · 3
M a g n ú s S i g u r ð s s o n
spjald kápunnar hafði bognað uppávið í stórum sveig. Fyrir háttinn
smeygði ég bókinni því undir níðþungan stofuskenkinn og geymdi
undir þunga hans alla þá nótt.
Morguninn eftir voru svo ljóðabréfin sem ný orðin er ég dró þau stíf-
pressuð undan fargi eikarskenksins. Og gott ef enn hafði ekki dregið úr
þykkt hins örþunna sagnakvers Hannesar Péturssonar, eftir að hafa
þrefaldast að umfangi kvöldið áður.
Við unnusta mín gerðum víðreist þá daga er Íslandsdvöl okkar stóð.
Meðal þess sem við tókum okkur fyrir hendur var ferð á Þingvelli í
stórkostlegum vetrarstillum og kyrrð, og í bakaleiðinni heimsóttum við
Gljúfrastein Halldórs Laxness. Vorum við einu gestir safnsins þann dag
og eyddum drjúgum tíma innan um bækur og listmuni heimilisins.
Listasöfn borgarinnar sóttum við líka, en nýlega hafði aðgangseyrir að
þeim öllum verið felldur niður. Þá sátum við okkar fyrstu sinfóníutón-
leika og skemmtum okkur ágætlega. Á efnisskránni voru píanókons-
ertar eftir Sibelius og Prókofíev.
Það var þó heimsókn okkar í Þjóðmenningarhúsið sem mestum hug-
hrifum olli. Þar skoðuðum við sýningu á hinu lofsverða æviverki Helga
Hálfdanarsonar þýðanda í gamla lestrarsal Landsbókasafnsins, sem og
handritasýningu safnsins á fyrstu hæðinni. Vorum við bæði sammála
um að það hafi verið dýrmæt upplifun og sterk að standa andspænis
Konungsbók Eddukvæða og finna að hin fornu skinnhandrit þessa
lands eru í raun áþreifanlegir gripir sem berja má augum.
Og þar sem ég stóð og virti fyrir mér þvældar og lítið eitt bylgjóttar
síður þessa örsmáa handrits, þessarar uppskriftar á dýrmætustu ger-
semum Íslands, þá varð mér skyndilega ljóst hvað atburðurinn nokkr-
um dögum fyrr – er Ljóðabréf Hannesar hrötuðu úr höndum mér –
táknaði.
„Skinnblöð þessa rifrildis þyrfti einnig að strauja og smeygja undir
farg,“ hvíslaði ég í eyra unnustu minnar. Myrkur herbergisins gleypti
okkur, en frá sýningarglugganum stafaði birtu. Andlit okkar spegluðust
í glerinu.
„Og við gerðumst bókhaldarar fornlífsins allt í kring, bjuggum okkur
hæli í fjölvísum stafkrókum …“ svo að um handritin og þá menn er rifj-
uðu upp germanskar endurminningar hér í norðurljósabeltinu sé haft
orðalag Hannesar sjálfs (11ta ljóðabréf, blaðsíða 28).