Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 29
TMM 2008 · 3 29
Ástráður Eysteinsson
Sambras
– eða hádegissnarl í Dyflinni með James
Joyce og Sigurði A. Magnússyni
Meðal helstu bókmenntaverka Sigurðar A. Magnússonar á löngum og
afar fjölbreytilegum ferli eru þýðingar hans á verkum Írans James Joyce.
Nefna má þýðinguna á Æskumynd listamannsins (2000), Portrait of the
Artist as a Young Man, sem ég tel vera dæmi um öndvegisþýðingu á verki
í þeirri bókmenntagrein sem við nefnum skáldsögu. Kunnari er þó þýðing
hans á öðru verki sem einnig er oftast flokkað sem skáldsaga, en var (og
er) að sumu leyti nýtt og illskilgreinanlegt fyrirbrigði í bókmenntasög-
unni. Þetta er hin dásamlega furðuskepna Ulysses sem er fjári harðsótt í
þýðingu og stundum með öllu óviðráðanleg. Sigurður (sem verður hér
eftir nefndur SAM) kallar þýðingu sína Ódysseif.1 Má segja að þar með sé
kinkað kolli til Odysseifskviðu, þ.e. frægrar þýðingar Sveinbjarnar Egils-
sonar á hinni forngrísku Hómerkviðu. Sú kviða er samfelldur undirtexti
í verki Joyce, eins og hann gekkst við á sinn hátt með því að skíra það
latnesku afbrigði (Ulysses) af nafni söguhetjunnar og sæfarandans Ódys-
seifs. Grikkinn sá hraktist um Miðjarðarhafið í tíu ár að loknu Trójustríði
áður en hann komst loks heim til Íþöku. Í verki Joyce er farin ólík en þó
hliðstæð ferð á einum degi um ólgusjó hversdagslífs á Írlandi fyrir rúmri
öld. Hér verður skyggnst inn á einn viðkomustað á því ferðalagi.2
Áttundi kafli Ulysses er alla jafna kallaður „Lestrygonians“, „Lestrý-
gónar“, með hliðsjón af þeim kafla í Odysseifskviðu þar sem segir frá
komu sæfaranna til eyjar Lestrýgónanna. Lestrýgónar eru risastórar
mannætur sem komast í feitt er skipafloti íþösku hetjunnar kemur þar
að landi; „stungu þeir skipverja í gegn, eins og fiska, og höfðu á burt
með sér, var það ófagur veizlukostur“, eins og segir í þýðingu Svein-
bjarnar Egilssonar.3
Í sögu Joyce er hinsvegar hádegi eða ríflega það í Dyflinnarborg 16.
júní 1904 og Ódysseifur nútímans, Leopold Bloom auglýsingamiðlari, er
á ferð í miðbænum, nýsloppinn út úr hinum vindasömu dagblaðaskrif-
stofum Freeman’s Journal and National Press þar sem mikið er talað og