Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 30
30 TMM 2008 · 3
Á s t r á ð u r E y s t e i n s s o n
margt látið fjúka.4 Kominn út á götur borgarinnar má segja að Bloom
nái andanum og hann tekur á ný til við þá eftirlætisiðju sína að rölta um
stræti, taka eftir fólki og mannvirkjum, láta hugann reika. En þá sækja
líka á hann í senn depurð og svengd. Að vísu langar hann ekki í það
munngæti sem fyrst er nefnt, í blábyrjun þessa matarkafla: „Ananas-
brjóstsykur, sítrónukökur, smjörkaramellur“ (151). Og hann hugsar ekki
fyrst og fremst um eigin magaþörf, því að hann kaupir síðan tvær Ban-
burykökur sem hann mylur niður í ána Liffey og gefur máfunum að éta.
Hann bíður sjálfur með snæðing, líklega vegna þess að honum að líður
sem eitthvað éti hann hið innra, honum er órótt en finnst hann líka vera
sljór og á hann sækir tómleikakennd innan um ys borgarinnar. „No one
is anything“ hugsar hann.
Enginn er neitt.
Þetta er alversti tími dagsins. Lífsþróttur. Sljór, drungalegur: hef ímugust á
þessari dagstund. Finnst einsog ég hafi verið étinn og mér verið ælt. (165)
Þetta er auðvitað ein tengingin við Hómerskaflann um Lestrýgónana –
nema hvað Bloom virðist vera óæti – honum hefur verið ælt upp aftur
og er þá kannski lifandi dauður í einhverjum skilningi, draugsmynd.
Þegar hann horfir á máfana og árflauminn, leita á hann skáldskapar-
þankar, m.a. línur draugsins í Hamlet:
Hamlet, ég er þíns föður andi
Dæmdur um hríð að hvarfla laus á jörðu. (153)
Aðstæðurnar virðast að vísu ganga þvert á þær sem móta leikrit Shake-
speares, því að Bloom er á lífi en sonur hans ungi dó hins vegar fyrir
allmörgum árum. Sá harmleikur innleiddi dauða í líf Blooms sem hann
hefur ekki losnað við og fyrir vikið hefur komið brestur í hjónabandið,
eða að minnsta kosti í ástarlíf þeirra hjóna, Leopolds og Mollýar. Þar
sem Bloom horfir í árflauminn og lætur Hamletlínurnar flæða um hug
sér, veit hann að spegilmynd Kládíusar, Blazes Boylan, mun nú senn
ekki aðeins heimsækja Mollý heldur að öllum líkindum njóta ásta með
henni í rúmi þeirra Bloomhjóna. Og Leopold er magnvana; í hetjuheimi
væri hægt að grípa inn í atburðarásina; í hversdagsheimi Blooms virðist
ekkert geta komið í veg fyrir hana.
Tengingin milli matar, áts, dauða og kynlífs er margþætt hér og veld-
ur því að þegar Bloom lítur inn á veitingahús Burtons fyllist hann ógeði
er hann sér karla (einskonar Lestrýgóna) troða upp í sig feitum rifja-