Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 38
38 TMM 2008 · 3
Ragnheiður Gestsdóttir
Endurfundir
– En gaman að þú skyldir geta komið!
– Heppilegt að þú skyldir vera á landinu!
– Sæl, manstu nokkuð eftir mér? Ég var í bé–bekknum!
– Guð, en gaman að sjá þig, eftir öll þessi ár!
Fyrst í stað þekkir hún engan. Vingjarnleg, brosandi andlitin
eru fullkomlega framandi. Þetta eru miðaldra andlit með bros-
hrukkur við augu, hold tekið að slakna á hökum og hálsum. Tenn-
ur sem farnar eru að gulna. Hár líflaust og tætt af of mikilli litun
og permanenti. Skallablettir. Ístrur.
En smátt og smátt fara önnur andlit að birtast. Það glittir í þau
undan grímu gleymsku og tíma, fyrst óljóst, svo skýrast þau.
Barnsandlit, slétt og búlduleit eða grönn og fíngerð. Unglingsand-
lit með of stór nef og bólugrafin enni. Og raddirnar fara að tengjast
andlitunum. Skrýtið hvað raddirnar hafa lítið breyst.
Nöfnin koma síðast. En þau koma samt, eitt af öðru. Guðmundur,
Óli, Kristín, Gugga, Palli Jóns, Maja, Solla … Þau eru þarna öll.
Hún brosir, heilsar, tekur í útréttar hendur. Horfir á þegar mið-
aldra konur fallast í faðma með skrækjum:
– Jesús! Þú hefur nú bara ekkert breyst!
– Hæ, elskan, hvað segirðu?
Hún stendur mitt í svolítilli þyrpingu, hávaxin, klædd í hvíta,
aðskorna dragt, grönn þrátt fyrir stóran barminn, kastaníubrúnt
hárið í þykkum, skínandi hnút í hnakkagrófinni, brosandi, en
ofurlítið fjarlæg. Það faðmar hana enginn að sér eða heilsar henni
með háværum upphrópunum. En það heilsa henni allir. Og hún
heilsar á móti. Svo leysist hópurinn upp og eitt andartak stendur
hún ein eftir.